Vonar að Mbappé slái metið sitt

Kylian Mbappé á framtíðina fyrir sér.
Kylian Mbappé á framtíðina fyrir sér. AFP

Markahæsti leikmaður heimsmeistaramóts karla í fótbolta frá upphafi, Miroslav Klose, vonast til að Kylian Mbappé slái metið sitt einn daginn. Mbappé skoraði fjögur mörk fyrir Frakka sem urðu heimsmeistarar í Rússlandi fyrr í mánuðinum.

Klose, sem skoraði 16 mörk í lokakeppni HM frá 2002-2014, hefur trú á Frakkanum sem er aðeins 19 ára. „Hann enn þá ungur og ætti að geta spilað á fjórum heimsmeistaramótum til viðbótar. Hann er líklegur til að jafna og jafnvel slá metið mitt,“ sagði Klose í samtali við Le Parisien. 

Klose segir að Mbappé komi til greina sem knattspyrnumaður ársins og fái Ballon D'Or eða Gullboltann fræga. „Hann er einn af þeim sem koma til greina, en hann fær harða samkeppni frá Griezmann, Modric og Ronaldo,“ sagði þýski markahrókurinn að endingu. 

mbl.is