Fer heim frá Katar - neitaði að breyta leikstílnum

André Onana og Rigobert Song á æfingu landsliðs Kamerún í …
André Onana og Rigobert Song á æfingu landsliðs Kamerún í gær, þar sem sagt er að hafi slegið í brýnu á milli þeirra. AFP/Issouf Sanogo

André Onana, markvörður kamerúnska landsliðsins og Inter Mílanó, er sagður vera á heimleið frá heimsmeistaramótinu í Katar.

Onana, sem er 26 ára gamall, kom til Inter í sumar frá Ajax í Hollandi og samdi til fimm ára. Hann hefur verið aðalmarkvörður Kamerúna að undanförnu og leikið 34 landsleiki, fjórtán þeirra á þessu ári.

Öllum að óvörum var Onana ekki í leikmannahópnum þegar kom að leik Kamerún og Serbíu í dag og sagt var að hann hefði verið settur í agabann.

Íþróttafréttamaðurinn Fabrizio Romano segir á Twitter að þetta sé ekki rétt. Sér hafi verið sagt að ástæðan sé sú að í viðræðum við landsliðsþjálfarann Rigobert Song hafi Onana neitað að breyta leikstíl sínum og vera „hefðbundnari“ sem markvörður.

„Onana hefur engan áhuga á að breyta leikstílnum - þetta voru heitar umræður, og hann hefur því verið settur út," segir Romano.

Annars staðar hefur komið fram að Song hafi viljað að Onana gerði meira af því að spila boltanum stutt á samherja sína.

mbl.is