Öllum nema Ronaldo sama hver skorar

Liðsfélagarnir fagna markinu sem Bruno Fernandes skoraði en Cristiano Ronaldo …
Liðsfélagarnir fagna markinu sem Bruno Fernandes skoraði en Cristiano Ronaldo vildi eigna sér. AFP/Kirill Kudryavtsev

Bruno Fernandes skoraði bæði mörk Portúgal í 2:0-sigri á Úrúgvæ í annarri umferð H-riðils heimsmeistaramóts karla í fótbolta í gær og sendi lið sitt í 16-liða úrslit.

Það leit út fyrir að Cristiano Ronaldo hefði skorað fyrra markið en hann náði ekki til boltans eftir fyrirgjöf Fernandes, sem sveif í fjærhornið. Ronaldo fagnaði sem markið hefði verið hans.

Bruno Fernandes sagði í viðtali eftir leikinn að honum sé alveg sama hver skori mörkin svo fremi sem liðið vinni leikina.

„Við erum ánægðir með sigurinn. Mikilvægu markmiði er náð, það er alveg sama hver skorar mörkin," sagði Bruno Fernandes.

Fernando Santos, þjálfari Portúgal, tók í sama streng.

„Þetta var frábær leikur og liðið spilaði mjög vel. Annað skiptir mig ekki nokkru máli,“ sagði Santos í viðtali að leik loknum.

Það virðist því vera sem svo að öllum nema Cristiano Ronaldo sé sama hver skorar mörk Portúgal.

Cristiano Ronaldo fagnar fyrra marki Portúgal í gær sem sínu …
Cristiano Ronaldo fagnar fyrra marki Portúgal í gær sem sínu þó greinilegt hafi verið að hann hafi ekki náð snertingu á boltann. AFP/Kirill Kudryavtsev
mbl.is