Allar stóru þjóðirnar standa sig - nema við

Þjóðverjar ganga vonsviknir af velli eftir að ljóst var að …
Þjóðverjar ganga vonsviknir af velli eftir að ljóst var að þátttöku þeirra á heimsmeistaramótinu í Katar væri lokið. AFP/Glyn Kirk

Gary Lineker hefur ekki lengur rétt fyrir sér. Fótbolti er ekki lengur leikur sem lýkur alltaf með sigri Þjóðverja. Stóru þjóðirnar hafa staðið sig vel í Katar. Allar nema við. Rétt eins og á tveimur síðustu stórmótum fer Þýskaland snemma heim.

Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið/mbl.is.
Philipp Lahm skrifar pistla um knattspyrnu fyrir Morgunblaðið/mbl.is. Ljósmynd/Philippe Arlt

Phil­ipp Lahm skrifar þennan pistil. Hann var fyr­irliði þýska landsliðsins í knatt­spyrnu þegar það varð heims­meist­ari árið 2014 og lék með Bayern München í fimmtán ár. Hann er móts­stjóri Evr­ópu­móts karla sem fram fer í Þýskalandi árið 2024. Pistl­ar hans, „Mitt sjón­ar­horn“, birt­ast reglu­lega í Morg­un­blaðinu og/​​​eða mbl.is. Þeir eru skrifaðir í sam­vinnu við Oli­ver Fritsch, íþrótta­rit­stjóra þýska net­miðils­ins Zeit On-line, og birt­ast í fjöl­miðlum nokk­urra Evr­ópu­landa.

Það er hægt að sjá ákveðið munstur í óförum undanfarinna fjögurra til fimm ára. Þýskaland leikur ekki lengur eins öflugan varnarleik og áður. Allir mótherjar eiga greiða leið að marki liðsins. Allir mótherjar fá góð færi, meira að segja Kosta Ríka og Óman (í æfingaleiknum). Leikur Þýskalands dettur alltaf niður á einhverjum kafla.

Í öllum þremur leikjum riðlakeppninnar sýndi þýska liðið ástríðu, ákveðni og grimmd. Mótherjarnir fundu fyrir því að þeir væru að mæta gæðaleikmönnum. En það skorti aðeins á skipulagið, og það var aldrei á hreinu hver væri í hvaða hlutverki. Liðið hjá Hansi Flick var ekki vel samstillt.

Alltaf tilbúinn til að greiða rothöggið

Berum okkur saman við Argentínumenn, sem líka töpuðu fyrir lægra skrifuðum mótherjum. Sádi-Arabía skoraði tvö mörk en þrjú mörk Argentínu voru aðeins dæmd af vegna nýju tækninnar. Heppni og óheppni eru hluti af leiknum. En meira að segja í tapleiknum sást vel að liðið hjá Lionel Scaloni stjórnaði leiknum vegna þess að það var vel skipulagt. Mexíkó og Pólland þvinguðu liðið niður á sinn vallarhelming á köflum í leikjunum. En besti hnefaleikarinn er alltaf tilbúinn til að greiða rothöggið.

Það gat þýska liðið ekki gert. Því tókst ekki að stjórna leikjunum. Til að gera það hefði það þurft að ná tökum á vörn og miðju. Lykilstöðurnar á vellinum, sem samkvæmt gamla kerfinu eru númer 4, 5, 6, 8 og 10, verða að bæta hver aðra upp, vera samstilltar og ná að tengjast órofa böndum.

Hinn 19 ára gamli Jamal Musiala var einn af bestu …
Hinn 19 ára gamli Jamal Musiala var einn af bestu sóknarmönnum Þjóðverja. AFP/Ina Fassbender

Stöðugleikann og skipulagið vantaði

Stöðugleiki næst aðeins með því að spila sem mest með sama liðið. Það var hins vegar ekki á hreinu lengi vel hverjir ættu að skipa miðvarðastöðurnar í þýska liðinu. Miðjan fann sig aldrei, enda þótt réttu mennirnir væru tilbúnir. Ég var í raun viss um að Joshua Kimmich, Leon Goretzka og Ilkay Gündogan myndu bæta hver annan upp og verða að sterkri heild ef þeir fengju að spila þrjá til fjóra leiki saman. Það varð ekki raunin.

Annað vandamál: Hver af fljótu kantbakvörðunum okkar átti að taka þátt í sóknarleiknum og hvernig, var jafnlítið á hreinu og með skipulagið á sóknarleiknum. Þýskaland á fjóra mjög góða sóknarmenn, Serge Gnabry, Jamal Musiala, Kai Havertz og Leroy Sané, og getur líka notað Thomas Müller og Niclas Füllkrug. Ég hefði fest þetta mikið fyrr.

Argentínumenn góðir í áhættustjórnun

Í fótbolta snýst allt um smáatriðin þegar komið er í leikinn og fyrir sóknarleikinn þýðir það meðal annars: Hvernig kemst ég inn í vítateiginn án þess að fórna öllu. Hvernig á ég að minnka hættuna á að fá á mig skyndisókn ef ég missi boltann í einleik? Þessa áhættustjórnun getur lið aðeins leyst í sameiningu og með samhæfingu hver við annan. Argentínumenn eru góðir í þessu. Þjóðverja vantar skipulagið til að gera þetta, líka að spila leikinn þannig að mótherjinn sé smám saman lokaður af og það skili sér í mörkum.

Það verður mikil áskorun fyrir þá sem bera á því ábyrgð að móta lið fyrir Evrópukeppnina á heimavelli eftir hálft annað ár. Þýskaland þarf að endurskapa sitt lið til þess að Lineker hafi rétt fyrir sér á ný.

Frakkar hafa heillað mig mest

Öll lið hafa lent í vandræðum á einhverjum tímapunkti á þessu móti, líka sigurstranglegustu liðin og fyrrverandi heimsmeistarar. Frakkar hafa heillað mig mest. Þeirra lið er algjörlega heilsteypt, hefur líkamlegan styrk, skipulag og tækni. Vörnin er stöðug og miðjan sinnir miklum varnarskyldum. Sóknarleikurinn í kringum hinn frábæra Kylian Mbappé er kraftmikil og skapandi. Hvað skyldi gerast ef á móti blæs? Þá getur orðið erfitt að bregðast við. Mbappé á enn eftir að sanna að hann hafi þroska til að gera alltaf réttu hlutina á réttum augnablikum.

Kylian Mbappé á enn eftir að sanna sig til fulls.
Kylian Mbappé á enn eftir að sanna sig til fulls. AFP/Jewel Samad

Spánverjar fara stundum yfir strikið

Spánverjar hafa spilað samkvæmt sinni hefð í Katar og vilja alltaf vera með boltann. Það er alltaf gaman að horfa á þá og minni lið eins og Kosta Ríka, ná nánast aldrei að halda boltanum gegn Spáni. Stundum fara Spánverjar hins vegar yfir strikið. Þeir spila stundum þvert í eigin vítateig, meira að segja markvörðurinn gerir það þó hann sé alltaf slakasti fótboltamaðurinn í liðinu. Þá verður hugmyndafræðin að þráhyggju. Fyrir vikið eru Spánverjar mjög brothættir, því þeir eru ekki lengur með menn á borð við Carles Puyol, Sergio Ramos, Xavi og Andrés Iniesta í sínum hópi. Þeir verjast heldur ekki vel gegn hefðbundnum sóknarleik.

Brasilía mesta óvissan

Brasilíumenn eru með frábæra einstaklinga í sínu liði, sóknarmenn, varnarmenn og markverði. Þeir eru heldur ekki lengur eins háðir Neymar og þeir voru. En það er langt síðan þeir spiluðu gegn bestu liðum Evrópu. Við vitum ekki hvernig þeir bregðast við mótlæti og hvort stjörnurnar þeirra nái að sýna allt sem í þeim býr. Þegar Þýskaland er horfið á braut er Brasilía mesta óvissuliðið.

Hvers vegna spilaði Phil Foden ekki fyrr en í þriðja …
Hvers vegna spilaði Phil Foden ekki fyrr en í þriðja leik? AFP/Ina Fassbender

Foden á alltaf að spila

England er með líkamlega sterkt lið, með hörkuna úr ensku úrvalsdeildinni innanborðs, og er með fullt af möguleikum í sóknarleiknum. Svona stór hópur hæfileikaríkra leikmanna getur náð langt. En það er ekki einfalt að gera þá að toppliði. Phil Foden spilaði fyrst í þriðja leik og þá sáu allir strax að hann ætti alltaf að spila. Aðeins þegar þeir bestu eru alltaf látnir spila - auk Fodens er það Harry Kane - verður það að stórveldi. Annað áhyggjuefni varðandi England, miðverðirnir eru í vandræðum með að koma boltanum hratt inn á vallarhelming mótherjanna. Ef andstæðingurinn heldur sig aftarlega á vellinum tapast dýrmætur tími.

Luka Modric stjórnar enn Króötum.
Luka Modric stjórnar enn Króötum. AFP/Gabriel Bouys

Liðsheild og Luka Modric

Hvernig liðsheild skilar árangri sést best á liði Króatíu. Enn er það byggt í kringum 37 ára gamlan Luka Modric. Hann er alltaf til taks, hann er einstaklega góður í að halda jafnvægi í liðinu með skilvirkum sendingum, sem létta pressunni af hans liði og færa hana yfir á mótherjann. Josko Guardiol er líka einn af bestu varnarmönnum mótsins. Króatía er enn og aftur með sannfærandi lið en er með takmarkaða breidd vegna þess hve þjóðin er fámenn.

Ég er spenntur að sjá hvernig öll sextán liðin sem eru komin áfram í keppninni glíma við sína veikleika. Einmitt það gerir heimsmeistaramót eins áhugavert og spennandi og það er.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert