Draumurinn úti í Hamborg - Danir sigruðu

Danir fagna sigrinum gegn Íslendingum í Hamborg.
Danir fagna sigrinum gegn Íslendingum í Hamborg. Reuters

Danir tryggðu sér sigur gegn Íslendingum með síðasta skoti leiksins í framlengingu í 8-liða úrslitum heimsmeistaramótsins í handknattleik en Danir skoruðu 42 mörk gegn 41 marki Íslendinga.

Staðan var jöfn 41:41 þegar íslenska liðið fór af stað um hálfri mínútu fyrir leikslok en skot Alexanders Peterssons fór í stöngina og náðu Danir boltanum í kjölfarið. Ólafur Stefánsson var rekinn útaf þegar um 15 sekúndur voru eftir og náðu Danir að stilla upp fyrir stórskyttu liðsins, Lars Möller Madsen, sem þrumaði knettinum í markið.

Snorri Steinn Guðjónsson fór á kostum í leiknum og skoraði hann 15 mörk alls.

Það gekk mikið á í framlengingunni þar sem að Íslendingar fengu gott tækifæri til þess að komast tveimur mörkum yfir rétt undir lok fyrri hálfleiks framlengingarinnar í stöðunni, 38:37. Logi Geirsson átti þá misheppnaða sendingu rétt undir lok fyrri hálfleiks og náðu Danir að jafna, 38:38.

Danir skoruðu fyrsta mark síðari hálfleiks framlengingarinnar. Snorri Steinn og Ólafur Stefánsson komu Íslendingum inn í leikinn á ný og var staðan jöfn, 40:40 þegar tvær mínútur voru til leiksloka. Guðjón Valur Sigurðsson bætti við 41. marki Íslands en Danir jöfnuðu í 41:41 þegar 45 sekúndur voru eftir.

Íslenska liðið átti tækifæri til þess að skora síðasta mark leiksins en skot Alexanders fór í stöngina eins og áður segir og Danir tryggðu sér sigur. Þeir mæta Frökkum í undanúrslitum á fimmtudaginn en Íslendingar mæta Rússum í leik um hvort liðið leikur um 5.-6. sæti mótsins.

Mörk Íslands: Snorri Steinn Guðjónsson 15/4, Ólafur Stefánsson 6/2, Logi Geirsson 6, Guðjón Valur Sigurðsson 5, Róbert Gunnarsson 4, Alexander Petersson 3, Sigfús Sigurðsson 1, Ásgeir Örn Hallgrímsson 1.

Mörk Dana Lars Møller Madsen 10, Michael V. Knudsen 9, Anders Oechsler 9, Lasse Boesen 5, Lars Rasmussen 3/1, Lars Christiansen 2, Jesper Jensen 2, Jesper Nøddesbo 1, Søren Stryger 1.

Lasse Boesen tekur Snorra Stein Guðjónsson föstum tökum í leiknum …
Lasse Boesen tekur Snorra Stein Guðjónsson föstum tökum í leiknum í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina