Hlakkar til að fást við Króata

Ólafur Gústafsson í vörn í leik við landslið Barein á ...
Ólafur Gústafsson í vörn í leik við landslið Barein á dögunum. mbl.is/Hari

„Króatarnir eiga nokkra góða miðjumenn og því mun reyna talsvert á okkur sem leikum í miðri vörninni,“ sagði Ólafur Gústafsson, landsliðsmaður í handknattleik, en reikna má með að hann leiki stórt hlutverk í hjarta íslensku varnarinnar í dag þegar íslenska landsliðið mætir landsliði Króata í Ólympíuhöllinni í München í fyrsta leik liðanna á heimsmeistaramótinu. Leikurinn hefst klukkan 17.

„Króatar leikar afar taktískan leik. Þeir hafa þungan og stóran línumann og eru einnig með mjög sterkar skyttur. Það mun reyna talsvert á okkur í vörninni en ég hlakka til að fást við þá,“ sagði Ólafur mun væntanlega deila stöðunni í miðri vörninni með Daníel Þór Ingasyni, Ými Erni Gíslasyni og Arnari Frey Arnarssyni.

„Við mætum dýrvitlausir til leiks með gott leikskipulag. Það skiptir okkur miklu máli að leggja okkur fram í hvern leik. Takist það þá verður spennandi að sjá hverju það skilar okkur þegar upp verður staðið,“ sagði Ólafur sem reiknar með sextíu mínútna baráttu í leiknum við Króata í dag.

Ólafur er eitt að nýju andlitunum í íslenska landsliðinu þótt hann hafi e.t.v. verið lengur í eldlínu handboltans en margir yngri menn landsliðsins sem nú eru að stíga sín fyrstu skref. Ólafur var lengi frá keppni vegna þrálátra meiðsla í hné en hefur fengið sig góðan og leikur nú af fullum krafti, ekki síst í varnarleiknum.

„Það er ótrúlega gaman að vera mættur á heimsmeistaramót á nýjan leik og ekki síðra að æfa undir stjórn Gumma [Guðmundur Þórður Guðmundsson].  Ég kann vel við það sem hann hefur fram að færa og hlakka þar af leiðandi til leiksins við Króata,“ sagði Ólafur en hann var síðast með íslenska landsliðinu á HM á Spáni 2013. Á árunum á eftir glímdi Ólafur við þrálát meiðsli og var meira eða minna frá keppni af þeim sökum í tvö ár. Hann lagði ekki árar í bát heldur fékk bót meina sinna og komst út á völlinn á nýjan leik og hefur síðasta rúma árið leikið með Kolding í Danmörku.

„Ég velti því aldrei fyrir mér hvort ég ætti afturkvæmt í landsliðið eða á stórmót á nýjan leik heldur vann hörðum höndum að því að ná mér góðum og gekkst meðal annars undir þrjár aðgerðir. Nú hef ég verið ágætur um skeið og tel mig hafa unnið mér sæti í landsliðinu á nýjan leik vegna þess að ég hef leikið vel um nokkurt skeið,“ sagði Ólafur sem kom fljótlega inn í landsliðið eftir að Guðmundur Þórður tók við þjálfun þess fyrir nærri ári.  „Ég er að uppskera laun erfiðis míns undanfarin ár,“ sagði Ólafur Gústafsson, landsliðsmaður í handknattleik.

Viðureign Íslands og Króatíu á HM hefst klukkan 17 í dag og verður fylgst með leiknum í beinni textalýsingu á mbl.is.

mbl.is