Komumst aldrei í takt við leikinn

Björgvin Páll Gústavsson markvörður landsliðsins náði sér ekki á strik …
Björgvin Páll Gústavsson markvörður landsliðsins náði sér ekki á strik gegn Brasilíumönnum í dag fremur en margir aðrir í íslenska liðinu. AFP

„Við komust ekki í takt við leikinn í upphafi. Viljinn er mikill að gera vel en því miður þá fylgdi líkaminn ekki höfðinu,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, reynslumesti leikmaður íslenska landsliðsins i handknattleik, vonsvikinn eftir þriggja marka tap fyrir brasilíska landsliðinu í lokaleiknum á heimsmeistaramótinu í Köln í dag, 32:29. Tapið verður til þess að íslenska liðið hafnar í 11. sæti á mótinu en hefði átt möguleika á að lyfta sér um eitt sæti til viðbótar með sigri.

„Brasilíumenn voru mjög ferskir og vel á sig komnir og því miður þá stóð leikurinn yfir í 60 mínútur en ekki sjötíu. Þá hefðum við kannski unnið þá,“ sagði Björgvin Páll sem náði sér ekki á strik í sínum 220. landsleik. Varði þó vel undir lok fyrri hálfleiks en var í vandræðum allan síðari hálfleikinn og á upphafsmínútunum.

Björgvin sagði það vera vonbrigði að ljúka mótinu á tapi en ekki megi heldur gleyma að þrátt fyrir tapið í dag hafi mótið í heild verið jákvætt fyrir íslenska liðið. „Við erum með ungt lið. Þetta mót fer í reynslubankann hjá strákunum. Menn verða líka að læra að taka tapleikjum þótt það sé erfitt. Strákarnir koma reynslunni ríkari til leiks á næsta móti og vinna leiki eins og þennan.

Vissulega vildum við vinna vegna þess að í boði var sæti á meðal tíu efstu. Við getum ekkert annað en lært af þessum leik þótt tapið sé súrt. Brasilíska liðið er gott og hefur verið á mikilli siglingu á mótinu og unnið fimm af átta leikjum sínum. Einnig voru þeir að berjast fyrir sínu sæti í mótinu. Því miður þá höfðu þeir eitthvað extra sem við náðum ekki að jafna okkur almennilega á,“ sagði Björgvin Páll Gústavsson, landsliðsmarkvörður í handknattleik.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert