Norðmenn verða að bíða – Fyrsta tap Frakka í 6 ár

Magnus Jondal fagnar einu af sjö mörkum sínum fyrir Norðmenn …
Magnus Jondal fagnar einu af sjö mörkum sínum fyrir Norðmenn í kvöld. AFP

Norðmenn unnu öruggan sigur gegn Ungverjum í lokaumferð milliriðils 2 á heimsmeistaramótinu í handbolta í kvöld, heimsmeistarar Frakka töpuðu sínum fyrsta leik á HM síðan 2013 þegar þeir lágu fyrir Króötum í milliriðli 1.

Norðmenn fögnuðu níu marka sigri 35:26. Þeir voru yfir eftir fyrri hálfleikinn 16:13 og þeir bættu við forskotið í seinni hálfleik. Norðmenn verða að bíða úrslitanna í leik Dana og Svía sem eigast við í kvöld. Fari Danir með sigur af hólmi fara þeir í undanúrslitin ásamt Norðmönnum en vinni Svíar með meira en fjögurra marka mun fara þeir áfram ásamt Norðmönnum en ef Svíar vinna með tveimur mörkum ræður markamunurinn á milli Svía og Norðmanna hvor þjóðin fer í undanúrslitin. Tap Ungverja gerði að verkum að þeir enda í fimmta sæti og komast ekki í umspil um sæti á Ólympíuleikunum.

Mörk Noregs: Magnus Rod 7, Magnus Jondal 7 Bjarte Myrhol 6, Kristian Bjornsen 5, Sander Sagosen 4, Petter Overby 2, Magnus Gullerud 2, Goran Johannessen 2.

Mörk Ungverjalands: Zsolt Balogh 11, Mate Lekai 5, Bence Banhidi 4, Richard Bodó 4, Bendeguz Boka 1, Laszlo Nagy 1.

Króatar fagna sigrinum gegn Frökkum í kvöld.
Króatar fagna sigrinum gegn Frökkum í kvöld. AFP

Mikilvægur sigur Króata

Króatar gulltryggðu sér farseðilinn í umspili um sæti á Ólympíuleikunum með sigri gegn heimsmeisturum Frakka 23:20. Tap hjá Króötum hefði þýtt að þeir hefðu hafnað í fimmta sætinu í riðlinum en sigurinn gerði það að verkum að þeir enda í þriðja sæti og spila um 5.-6. sæti á mótinu.

Staðan var jöfn í hálfleik 11:11 en Króatar reyndust sterkari á lokasprettinum. Frakkar og Þjóðverjar eru með 7 stig í efsta sæti en Þjóðverjar mæta Spánverjum í kvöld og geta tryggt sér efsta sætið. Frakkar töpuðu síðast leik í úrslitakeppni HM árið 2013 þegar þeir töpuðu fyrir Þjóðverjum.

Mörk Frakklands: Melvyn Richardson 5, Timothey N’Guessan 3, Luc Abalo 3, Ludovic Fabregas 2, Nedim Remili 2, Mathieu Grebille 2, Romain Lagarde 1, Dika Mem 1, Valentin Porte 1.

Mörk Króatíu: Zlatko Horvat 7, David Mandic 4, Jakov Vrankovic 3, Zeljko Musa 2, Manuel Strlek 2, Igor Karacic 2, Marin Sipic 1, Ivan Vida 1, Domagoj Duvnjak 1.

mbl.is