Sex leikir á HM í dag – Framhaldið ræðst

Svíinn Lukas Nilsson á skot að marki Noregs á dögunum …
Svíinn Lukas Nilsson á skot að marki Noregs á dögunum en Magnus Gullerud er til varnar. Þjóðirnar eru í baráttu um sæti í undanúrslitum. AFP

Milliriðlum heimsmeistaramótsins í handknattleik lýkur í dag þegar heil umferð fer fram í þeim báðum. Alls eru því sex leikir að dagskrá og mikið undir í flestum þeirra þar sem í ljós kemur hvaða þjóðir spila um heimsmeistaratitilinn.

Klukkan 14.30 mætir Ísland liði Brasilíu, þar sem mikið er í húfi fyrir brasilíska liðið. Sigur gæti gefið þeim fjórða sætið í riðlinum þar sem spilað er um sjöunda sæti mótsins og þátttökurétt í undankeppni Ólympíuleika. Í hinum riðlinum mætast Túnis og Egyptaland á sama tíma, en það sama er uppi á teningnum þar þar sem Egyptar vonast eftir fjórða sæti riðilsins.

Klukkan 17 eru svo tveir leikir á dagskrá. Í riðli Íslands mætast þá Frakkar og Króatar, en Frakkar hafa þegar tryggt sæti sitt í undanúrslitum. Króatar eru hins vegar í baráttu við Spánverja um þriðja sætið, en fari svo að Króatar tapi en Brasilía vinni Ísland mun Króatía enda í fimmta sæti riðilsins. Á sama tíma mætast Noregur og Ungverjaland í hinum riðlinum, en Norðmenn eiga enn möguleika á undanúrslitum eftir sigur á Svíum á mánudag.

Klukkan 19.30 mætast Þjóðverjar og Spánverjar í riðli Íslands. Þjóðverjar eru eins og Frakkar öruggir í undanúrslit og Spánverjar berjast aðeins um að halda þriðja sæti riðilsins og spila þar með um fimmta sæti mótsins. Í hinum riðlinum mætast Danir og Svíar í toppslag þar sem Danir standa best að vígi um sæti í undanúrslitum.

Leikir dagsins í milliriðli I

14.30 Brasilía – Ísland
17.00 Frakkland – Króatía
19.30 Þýskaland – Spánn

Leikir dagsins í milliriðli II
14.30 Túnis – Egyptaland
17:00 Noregur – Ungverjaland
19.30 Danmörk – Svíþjóð

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert