Svíar í úrslit eftir öruggan sigur á Frökkum

Svíar fagna einu marka sinna í leiknum í dag.
Svíar fagna einu marka sinna í leiknum í dag. AFP

Svíþjóð er komið í úrslitaleik heimsmeistaramótsins í handknattleik í Egyptalandi eftir að hafa unnið magnaðan 32:26 sigur gegn Frökkum í undanúrslitum keppninnar í dag.

Svíar voru yfir svo gott sem allan fyrri hálfleikinn og náðu Frakkar aðeins einu sinni forystunni í hálfleiknum, þegar liðið komst í 6:7. Eftir það tóku Svíar leikinn yfir og þegar tæpar 23 mínútur voru liðnar af fyrri hálfleiknum komust Svíar í fjögurra marka forystu, 12:8.

Frökkum leist ekki á blikuna og tóku umsvifalaust leikhlé. Þegar þarna var komið við sögu í leiknum höfðu frönsku markverðirnir Vincent Gerard og Yann Genty ekki varið eitt einasta skot í leiknum. Frakkarnir tóku örlítið við sér eftir leikhléið en náðu þó aðeins að minnka muninn um eitt mark. Svíarnir fóru því með 16:13 forystu í hálfleik.

Í síðari hálfleik mættu Frakkar til leiks af miklum krafti og voru fljótt búnir að minnka muninn niður í eitt mark, 17:16. Eftir það tóku Svíar aftur stjórnina og náðu aftur fjögurra marka forystu. Þegar staðan var orðin 26:21 um miðjan hálfleikinn litu þeir hvergi til baka. Mest náðu Svíarnir sex marka forystu seint í leiknum og sigldu að lokum frábærum 32:26 sigri í höfn.

Svíar eru því komnir í úrslitaleik heimsmeistaramótsins, eitthvað sem fáa hefði grunað fyrir mót þar sem fjöldi leikmanna heltust úr lestinni af ýmsum ástæðum stuttu áður en liðið hóf keppni í Egyptalandi. Í úrslitunum munu Svíar mæta annað hvort Dönum eða Spánverjum, sem leika til þrautar kl. 19.30 í kvöld.

Hampus Wanne fór á kostum í leiknum og skoraði 11 mörk fyrir Svía. Þá var Andreas Palicka í marki þeirra drjúgur og varði 12 skot (32,4% varsla).

Að sama skapi var markahæsti leikmaður Frakka Hugo Descat með fimm mörk og markvarslan lítil sem engin. Yann Genty varði þrjú skot (15% varsla) og Vincent Gerard varði aðeins eitt skot (6,3% varsla).

Frakkland – Svíþjóð 26-32 (13-16)

Frakkland: Hugo Descat 5, Nedim Remili 4, Ludovic Fabregas 3, Dika Mem 3, Nicolas Tournat 2, Kentin Mahe 2, Luc Abalo 2, Nicolas Claire 2, Jean Jacques Acquevillo 1, Valentin Porte 1, Michael Guigou 1.

Svíþjóð: Hampus Wanne 11, Daniel Pettersson 6, Jonathan Carlsbogard 4, Jim Gottfridsson 3, Felix Claar 3, Albin Lagergren 3, Lukas Sandell 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert