SA er nálægt sögulegu afreki eftir risasigur

SA er Íslandsmeistari í íshokkíi.
SA er Íslandsmeistari í íshokkíi. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Skautafélag Akureyrar vann risasigur, 6:1, í öðrum leik sínum í undanriðli Evrópubikar félagsliða í íshokkí. Riðillinn er leikinn í Búlgaríu og í dag var það tyrkneska meistaraliðið Zeytinburnu frá Istanbúl sem lenti í Víkingunum að norðan.

Sigmundur Sveinsson kom SA yfir og Ingvar Þór Jónsson bætti við marki í fyrsta leikhluta. Thomas Stuart-Dant kom SA í 3:0 áður en Tyrkirnir minnkuðu muninn. Jón Benedikt Gíslason og Jóhann Már Leifsson komu SA hins vegar í 5:1 áður en annar leikhluti var úti. Bjartur Gunnarsson innsiglaði svo 6:1 sigur SA þegar skammt var eftir.

SA vann búlgarska meistaraliðið Irbis-Skate 5:4 eftir vítakeppni í gær og er nú með fimm stig á toppi riðilsins. Á morgun mætir SA ísraleska liðinu Bat Yam, sem tapaði 8:1 fyrir búlgarska liðinu í dag. Aðeins efsta liðið kemst áfram í næstu umferð og stendur SA því vel að vígi með 5 stig, Irbis-Skate hefur 4, Zeytinburnu er með 3 stig og Bat Yam er án stiga.

SA er í sinni fyrstu Evr­ópu­keppni en UMFK Esja lék í sömu keppni fyr­ir ári og hafði þá eitt stig upp úr sín­um þrem­ur leikj­um. Komist SA áfram í næstu umferð, sem fram fer í Riga í október, verður því um sögulega stund að ræða í íslensku íshokkíi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert