Flottur sigur á Króötum

Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði tvö marka Íslands í dag.
Silvía Rán Björgvinsdóttir skoraði tvö marka Íslands í dag. Ljósmynd/Þórir Ó. Tryggvason

Ísland vann Króatíu 3:0 á HM kvenna í íshokkí í dag og hefur þar með unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum á mótinu.

Liðin leika í B-riðli 2. deildar HM og fer mótið fram í Rúmeníu. Ísland vann 9:5-sigur á heimakonum í rúmenska liðinu í fyrsta leik en tapaði svo naumlega fyrir Nýja-Sjálandi, 2:1.

Í dag var staðan markalaus fram yfir miðjan 2. leikhluta en þá kom Silvía Rán Björgvinsdóttir Íslandi yfir. Sigrún Agatha Árnadóttir kom Íslandi í 2:0 um miðjan 3. leikhluta áður en Silvía innsiglaði sigurinn með sínu öðru marki í lokin. Ísland var mun sterkari aðilinn í leiknum og átti 50 skot gegn 14 frá Króötum.

Hin 17 ára gamla Thelma Þöll Matthíasdóttir varði mark Íslands í leiknum og hélt hreinu í frumraun sinni með landsliðinu, eins og kollegi hennar úr landsliði karla, Snorri Sigurbergsson, benti á á Instagram. 

Ísland er því með sex stig en Taívan er einnig með sex stig og á leik til góða við Rúmeníu í kvöld. Ísland mætir næst Tyrklandi á morgun og svo Taívan í lokaumferðinni á sunnudaginn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert