Með dalvískan stuðning í byrjun atvinnumennsku

Tryggvi Snær Hlinason
Tryggvi Snær Hlinason mbl.is/Skúli B. Sigurðsson

Landsliðsmiðherjinn ungi Tryggvi Snær Hlinason er mættur til æfinga hjá sínu nýja félagi, Spánarmeisturum Valencia, í samnefndri borg.

Eftir að hafa leikið á tveimur stórmótum í sumar, EM U20-landsliða þar sem Tryggvi var valinn í fimm manna úrvalslið og svo EM A-landsliða, er þessi 19 ára bráðefnilegi körfuboltamaður nú að koma sér fyrir, fjarri heimahögunum, á sínu fyrsta ári í atvinnumennsku.

„Borgin er flott, íbúðin sem ég er að flytja í lítur vel út og það er búið að taka vel á móti manni. Ég er bara spenntur,“ sagði Tryggvi rólegur, á milli æfinga hjá Valencia í gær. Tryggvi verður ekki einn því dalvískur vinur hans mun búa með honum og nema spænsku í borginni.

Eins og gefur að skilja er Tryggvi líklega aftarlega í goggunarröðinni hjá spænsku meisturunum og líklega mun hann aðallega fá að láta ljós sitt skína með varaliði Valencia í vetur, í spænsku 3. deildinni. Hann mun hins vegar æfa með aðalliðinu og ef til vill fá einhverjar mínútur:

„Ég byrja með aðalliðinu þar sem það vantar ennþá leikmenn, auk þess sem einn af stóru mönnunum er meiddur. Það á allt eftir að koma í ljós varðandi það hvernig þetta verður þegar leiktíðin hefst svo. Maður má spila með bæði aðal- og varaliðinu ef maður spilar nægilega lítið með aðalliðinu,“ sagði Tryggvi, en leiktíðin á Spáni hefst um mánaðamótin, að loknu Evrópumótinu sem enn stendur yfir.

Sjá allt viðtalið við Tryggva í íþróttablaði Morgublaðsins í dag