Taylor var boðið til æfinga hjá NFL-liði

Ryan Taylor í leik með ÍR gegn Val.
Ryan Taylor í leik með ÍR gegn Val. mbl.is/Árni Sæberg

Ryan Taylor, sem leikið hefur við hvern sinn fingur með ÍR í Dominos-deildinni í körfuknattleik í vetur, var boðið til æfinga hjá liði úr NFL-deildinni í amerískum fótbolta.

Taylor fékk fyrirspurn frá Chicago Bears um að koma í æfingabúðir hjá félaginu. Vinnulagið er með þeim hætti hjá liðum í deildinni að haldnar eru æfingabúðir á milli tímabila þar sem leikmenn geta reynt fyrir sér. Takist þeim að heilla þjálfarana þá geta þeir fengið samning hjá viðkomandi félagi.

Taylor fékk tölvupósta frá „njósnara“ Bears um að koma til æfinga en Taylor gaf það frá sér enda með hugann við körfuboltann og hafði kosið að keppa í þeirri íþrótt í menntaskóla og háskóla.

Segir það hins vegar nokkuð um íþróttamanninn Ryan Taylor að atvinnumannalið úr annarri íþrótt skuli vilja skoða hann þótt hann hafi ekki spilað þá íþrótt af krafti síðan hann var 15 ára gamall en Taylor tjáði Morgunblaðinu að á yngri árum hafi hann stundað þrjár ólíkar íþróttagreinar: körfubolta, ameríska fótboltann og golf. 

„Margir sögðu við mig að mistök hefðu verið að hafna þessu boði,“ segir Taylor en er hógvær varðandi þetta þótt augu blaðamannsins hafi stækkað nokkuð þegar Taylor hafði orð á þessu. Sjálfur styður hann lið Indianapolis Colts í NFL enda uppalinn í borginni. „Ágætt lið þótt þetta tímabil hafi verið slakt.“

Ítarlegt viðtal við Ryan Taylor er að finna í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag.

Ryan Taylor í baráttu við Antonio Hester hjá Tindastóli. Þeir ...
Ryan Taylor í baráttu við Antonio Hester hjá Tindastóli. Þeir voru í æfingabúðum hjá sama styrktarþjálfara síðasta sumar þegar þeir bjuggu sig undir tímabilið í körfuboltanum. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is