Ákvað að svara kallinu í dag

Martin Hermannsson skoraði 11 stig í fyrsta leikhluta í kvöld, …
Martin Hermannsson skoraði 11 stig í fyrsta leikhluta í kvöld, og 26 stig alls, og fer hér framhjá Tuukka Kotti. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var virkilega sætt og maður var búinn að bíða lengi eftir þessum sigri. Síðustu leikir eru búnir að svíða; á móti Finnum á EM og svo Búlgörum í þessari undankeppni og því er þetta sérstaklega sætt," sagði Martin Hermannsson, stigahæsti leikmaður Íslands í glæsilegum 81:76-sigri á Finnum í undankeppni HM í körfubolta í kvöld.

Íslenska liðið var mest 11 stigum undir í 3. leikhluta, en gafst ekki upp. Hann segir alla í liðinu eiga þátt í viðsnúningnum. 

„Við ákváðum að byrja í vörninni og fá nokkur stopp. Við stigum svo allir upp og fórum að pressa í vörninni, yfirdekka sendingar og á köntunum. Þeir áttu í vandræðum með það, við nýttum okkur það og settum stór skot hinum megin, m.a var Pavel með tvo risaþrista og allir voru að gera eitthvað. Þetta var liðssigur og manni leið vel þegar Jón setti þristinn og kom okkur fimm yfir, þá fannst manni þetta nokkurn veginn vera komið."

Hlynur Bæringsson átti mjög góðan leik, sem og Martin sjálfur. Martin fór yfir leik þeirra beggja.

„Hlynur sagði við mig eftir leik að þetta væri það skemmtilegasta sem hann gerir. Hann er búinn að vera á sjálfsstýringu í deildinni heima, en hann fann nýjan neista í dag, það heldur mönnum í þessu, þetta er svo ógeðslega gaman. Það er erfitt að lýsa tilfinningunni að spila fyrir þjóðina sína og spila fyrir framan fulla Laugardalshöll. Þetta er ekki það sama og að spila með félagsliði. Við gerðum þetta fyrir okkur og Loga. Vonandi er fólk bjartsýnna núna og fyllir Laugardalshöllina á sunnudaginn."

„Mér leið mjög vel í dag. Það var talað um það eftir leikinn á móti Búlgaríu að ég hafi týnst á lokakaflanum og ekki tekið á skarið þegar þurfti. Ég ákvað að svara kallinu í dag og ég lét vaða á það þegar það þurfti. Stundum gengur það upp og stundum ekki og þetta gekk upp í dag," sagði Martin að endingu. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert