Fannst við alltaf með þá

Jón Arnór Stefánsson fagnar með Martin Hermannssyni í kvöld.
Jón Arnór Stefánsson fagnar með Martin Hermannssyni í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg

„Þetta var kærkomið og mjög sætt, það er alltaf gaman að spila vel í Höllinni," sagði Jón Arnór Stefánsson í samtali við mbl.is í kvöld eftir 81:76-sigurinn glæsilega á Finnum í undankeppni HM í kvöld. 

Finnar náðu 11 stiga forskoti í 3. leikhluta, en þrátt fyrir það gafst íslenska liðið ekki upp og náði í glæsilegan sigur.

„Við spiluðum vel eiginlega allan leikinn þó við höfum hikað aðeins í 3. leikhluta. Eftir það köfðum við djúpt og náðum í þessa liðsbaráttu og liðsanda sem skóp þennan sigur. Þeir voru í basli með okkur í 3. leikhluta. Við róteruðum vel í vörninni og urðum áræðnir í sókninni og það opnaði fyrir okkur."

„Þeir réðu ekkert við Martin og við framkvæmdum allt mjög vel í lokin og hittum úr góðum skotum. Maður þarf allt þetta með okkur til að vinna leiki á þessu stigi."

Jón Arnór segir það óþarfa að missa Finnana 11 stigum á undan og fannst honum íslenska liðið betra í allt kvöld.

„Mér fannst við vera með þá og við hefðum átt að gera betur. Mér fannst við vera með betra mannað lið og hefðum í raun átt að vera með meira forskot. Það er hins vegar ekkert sjálfgefið í þessu. Ég hitti sjálfur ekki neitt í dag og var ekki í takti, það sem skiptir máli í lokin eru að allir stigu upp, hittu úr stórum skotum og stóðu vörnina vel."

Eftir leikinn er Ísland, Finnland og Búlgaría öll með fjögur stig í F-riðli, en Jón Arnór spáir lítið í stöðunni.

„Ég veit ekkert hver staðan er, þetta snýst bara um að vinna leiki og sérstaklega heimaleikina. Við einbeitum okkur að því að jafna okkur fyrir sunnudaginn, það er stutt í næsta leik. Þetta er mikið prógram og við þurfum koma ljónvitlausir á móti Tékkum. Þetta er skemmtilegra en að æfa, það er klárt," sagði Jón Arnór Stefánsson. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert