Stærsti sigurinn í NBA í 20 ár

Kemba Walker skoraði 46 stig fyrir Charlotte í nótt.
Kemba Walker skoraði 46 stig fyrir Charlotte í nótt. AFP

Charlotte Hornets vann í nótt stærsta sigurinn í NBA-deildinni í körfuknattleik í 20 ár þegar liðið rótburstaði Memphis Grizzlies, 140:79, eða með 61 stigs mun.

Þetta er aðeins í sjötta sinn sem lið vinnur með meira en 60 stiga mun í NBA. Kemba Walker skoraði 46 stig fyrir Charlotte en hann skoraði tíu þriggja stiga körfur í leiknum.

Houston Rockets vann sinn sjöunda sigur í röð þegar liðið hafði betur gegn Detroit í framlengdum leik, 100:96. Eric Gordon skoraði 22 stig en James Harden, stigahæsti leikmaðurinn í deildinni, lét sér nægja 21 stig og var tíu stigum undir meðallagi sínu. Blake Griffin var með þrefalda tvennu í liði Detroit, skoraði 21 stig, tók 10 fráköst og gaf 10 stoðsendingar.

Anthony Davis skoraði 33 stig og tók 9 fráköst fyrir New Orleans í sigri liðsins á móti Los Angeles Lakers. Kentavious Caldwell-Pope var atkvæðamestur í liði Lakers með 28 stig.

Úrslitin í nótt:

Philadelphia - Orlando 118:98
Charlotte - Memphis 140:79
Houston - Detroit 100:96 e.framl.
New Orleans - LA Lakers 128:125
Utah - Dallas 119:112
Sacramento - Atlanta 105:90

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert