„Vil bara fara að spila körfubolta“

Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar.
Hrafn Kristjánsson, þjálfari Stjörnunnar. mbl.is/Hari

Eins og greint var frá fyrr í dag hefur dómaranefnd KKÍ dæmt ÍR-inginn Ryan Taylor í þriggja leikja bann eftir gróft brot hans á Hlyni Bæringssyni, leikmanni Stjörnunnar, í leik liðanna í 8-liða úrslitum Dominos-deildar karla í körfuknattleik.

Atvikið sem um ræðir er þegar Taylor sló Hlyn í hnakkann en dómararnir dæmdu óíþróttamannslega villu á Taylor. Mbl.is heyrði Í Hrafni Kristjánssyni, þjálfara Stjörnunnar, til að fá viðbrögð hans við ákvörðun KKÍ.

„Ég myndi segja að þetta bann væri alls ekki lengra en ég bjóst við. Í minum huga var þetta brot mjög ljótt strax og ég sá það og það hefur ekki breyst við endursýningar og útskýringar sem komið hafa eftir á. Ég held ég skilji samt að einhverju leyti aðferðafræðina sem stuðst hefur verið við. Það liggur fyrir dómur á tímabilinu þar sem á sér stað högg í hnakka, þar var aðili dæmdur í þrjá leiki. Mig grunar að þeir hafi tekið þann verknað, þ.e. að högg í hnakka kalli á sömu refsingu og hafi verið dæmd áður.“

Vil bara fara að spila körfubolta

„Stjarnan var ekki málsaðili í málinu. Við stóðum fyrir utan og komum ekki okkar sjónarmiðum á framfæri, við bara biðum eins og aðrir eftir niðurstöðu. Núna vil ég bara fara að spila körfubolta. Manni hefur kannski liðið eins og gleðin og ánægjan sem er í þessu hafi horfið dálítið.“

Mikið hefur verið rætt og ritað í fjölmiðlum sem og á samfélagsmiðlum um leikinn og eftirmál hans. Hrafn segir að bæði hann sjálfur og aðrir geti gert betur í framferði sínu til að vera körfuboltanum til sóma.

„Bæði í þessum leik og í kjölfar hans eru allir persónur og leikendur, ég meðtalinn. Menn þurfa að vanda sig og kannski er vonandi þarna komin einhver lokun og við getum haldið áfram að spila bolta og hafa Dominos-deildina eins frábæra og skemmtilega og hún hefur verið.“

Ryan Taylor og Hlynur Bæringsson í baráttunni í vetur.
Ryan Taylor og Hlynur Bæringsson í baráttunni í vetur. mbl.is/Eggert

Get vandað mig betur

Það vakti athygli margra eftir leik að Hrafn og Taylor virtust eiga í orðaskiptum eftir leikinn. Hrafn segist hafa reiðst í gegnum gang leiksins og ítrekaði aftur að hann gæti vandað sig betur hvað varðar hátterni hans á hliðarlínunni.

„Ég veit ekki hvort það skili einhverju að fara ofan í saumana varðandi það. Ég get verið blóðheitur og reiddist mikið í gegnum gang þessa leiks. Mer fannst vegið að mínum leikmanni og brást til varnar. Ég get alveg vandað mig betur við að tjá mig þegar tilfinningarnar eru hátt stemmdar eins og þarna.“

Hann vill þó gera athugasemd við eitt atriði úr eftirmálum leiksins.

„Ég hef rakið augun í einhverskonar orðasamband sem ég á að hafa látið út úr mér sem á alls ekki við rök að styðjast og ég myndi aldrei nota, svo því sé komið til skila.“

„Ég er samt alls ekki undanskilinn ábyrgð, frekar en einhver annar, hvað þetta einvígi varðar þegar kemur að því að gera hlutina rétt.

Öllum annt um heilsu Hlyns

Ekki bara er Ryan Taylor á milli tannanna á fólki heldur er einnig öllum afar umhugað um heilsu Hlyns eftir höfuðhöggið, jafnvel sérstaklega mörgum ÍR-ingum sem vilja helst ekki að þessi besti leikmaður einvígsins spili leikinn á morgun, heilsunnar vegna.

„Það er greinilegt að öllum er annt um hans heilsu, hvort sem þeir halda með Stjörnunni, ÍR eða einhverju öðru liði og við erum að vanda okkur. Þetta er ekki ákvörðun sem ég sem þjálfari eða hann einn og sér getum eða megum taka.“

Margir bíða spenntir eftir því að sjá hvort Hlynur Bæringsson …
Margir bíða spenntir eftir því að sjá hvort Hlynur Bæringsson verði með á morgun. mbl.is/Árni Sæberg

Aðspurður hvort Hlynur væri með heilahristing eða hvort hann gæti spilað á morgun sagði Hrafn að sú ákvörðun yrði tekin í samráði við fagfólk, ekki af geðþótta.

„Hann sýnir ekki óyggjandi einkenni þess en það finna allir fyrir svona höggi þegar þeir fá það. Þetta er ekki einfalt ferli að eiga við en mér hefur þótt vænt um viðbrögðin. Það hefur fagfólk sett sig í samband við okkur og það er að ræða við Hlyn líka. Sú ákvörðun sem verður tekin verður byggð á því sem við fáum út úr okkar samræðum og þeim ráðleggingum sem við fáum frá því fólki, það verður ekki geðþótta ákvörðun tekin rétt fyrir leik.

Ég vona að fólk sætti sig við það en fari ekki að mála einhverjar kenningar. Hann var á æfingu á morgun, hljóp og skaut og svo ákváðum við að hann myndi ekki gera meira. Við erum bara að lesa í þetta og svo hittumst við aftur í fyrramálið á stuttri æfingu. Þá mætir okkar fólk sem hjálpar okkur að taka þessa ákvörðun,“ sagði Hrafn að endingu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert