Tindastóll fer í úrslitin

Ryan Taylor sækir að körfu Tindastóls í kvöld.
Ryan Taylor sækir að körfu Tindastóls í kvöld. Ljósmynd/Hjalti Arnason

Tindastóll og ÍR áttust við á Sauðárkróki í kvöld. Leikurinn var fjórða viðureign liðanna í úrslitakeppninni í Dominos-deildinni í körfubolta. Þrír fyrstu leikirnir höfðu allir unnist af útiliðinu og urðu ÍR-ingar að vinna til að halda áfram keppni. Liðin buðu upp á einn æsilegasta leik sem menn muna eftir og fór svo að lokum að Tindastóll hafði sigur, 90:87.

Fyrsti leikhlutinn var hreint út sagt frábær að hálfu beggja liða. Körfurnar hrúguðust upp og lengstum voru það Stólarnir sem leiddu. ÍR-ingurinn Ryan Taylor kom mjög sterkur til leiks, skoraði grimmt og reif til sín fráköst. Annars voru fáir að skora og fjórir úr hvoru liði komust á blað i fyrsta leikhluta. ÍR var stigi yfir eftir hann, 27:26. Sigurkarl Róbert Jóhannesson skoraði þrist rétt fyrir lok leikhlutans og kom ÍR yfir.

Annan leikhlutann var hnífjafnt framan af en um miðjan leikhlutann komust Stólarnir framúr. Heimamenn voru mest á vítalínunni seinnihluta hans og í þetta skipti fóru flest vítin niður. Tindastóll var mest sjö stigum yfir nokkrum sinnum í leikhlutanum og í hálfleik var staðan 52:45. Hannes Ingi Másson setti síðustu körfuna, þrist, og þakið ætlaði næstum því af húsinu. Ekki minnkaði stuðið þegar Geirmundur Valtýsson steig á stokk og spilaði sinn þekktasta slagara.

Strax á upphafsmínútum seinni hálfleiks sást hver leikmannanna var að fíla Geirmund best. Var það ÍR-ingurinn Sigurkarl Róbert Jóhannesson. Hann skoraði fyrstu átta stig liðsins í leikhlutanum, stal boltum og var virkilega öflugur. ÍR-ingar eltu allan tímann en hertu vörn sína og Stólarnir komust lítt áleiðis. ÍR var líka að taka miklu fleiri fráköst og má segja að Breiðhyltingar hafi hangið inni í leiknum út af því. ÍR var við það að jafna leikinn nokkrum sinnum en það tókst ekki og Stólarnir skriðu aftur framúr. Það stóð 76:69 eftir þriðja leikhlutann.

Lokaleikhlutinn var einn sá allra mest spennandi í manna minnum. ÍR spilaði svakalega góða vörn og gaf Stólunum ekkert. Smám saman minnkaði munurinn og ÍR komst loks yfir um miðjan leikhlutann, mest fimm stig. Þá þurfti Antonio Hester eð fara meiddur af velli og útlitið varð dekkra hjá Skagfirðingum. Inn kom þá Chris Davenport og hann hreinlega gerði gæfumuninn í lokin með góðri vörn, fráköstum og einni geggjuðustu körfu tímabilsins, sem hreinlega kveikti í Stólunum á ný. Þeir komust yfir á lokamínútunum og unnu að lokum 90:87. Matthías Orri Sigurðsson átti lokaskot ÍR-inga en það dansaði á hringnum og ÍR-ingar voru þar með úr leik.

Sauðárkrókur, Úrvalsdeild karla, 13. apríl 2018.

Gangur leiksins:: 11:6, 11:11, 19:18, 26:27, 30:30, 39:35, 42:37, 52:45, 55:51, 63:59, 69:66, 76:69, 78:77, 78:83, 86:83, 90:87.

Tindastóll: Antonio Hester 26/8 fráköst/5 stoðsendingar, Sigtryggur Arnar Björnsson 16/4 fráköst, Pétur Rúnar Birgisson 15, Axel Kárason 7/5 stoðsendingar, Björgvin Hafþór Ríkharðsson 6, Helgi Rafn Viggósson 5, Chris Davenport 4/6 fráköst, Friðrik Þór Stefánsson 4, Viðar Ágústsson 4, Hannes Ingi Másson 3.

Fráköst: 19 í vörn, 10 í sókn.

ÍR: Ryan Taylor 25/18 fráköst/5 stoðsendingar, Sigurkarl Róbert Jóhannesson 16, Matthías Orri Sigurðarson 15/6 fráköst/5 stoðsendingar, Danero Thomas 15/5 fráköst, Sveinbjörn Claessen 9/5 fráköst, Hákon Örn Hjálmarsson 5/4 fráköst, Kristinn Marinósson 2.

Fráköst: 29 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Sigmundur Már Herbertsson, Rögnvaldur Hreiðarsson, Ísak Ernir Kristinsson.

Áhorfendur: 750

Tindastóll 90:87 ÍR opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert