Miami jafnaði gegn Philadelphia

Kevin Durant fagnar í leiknum í nótt.
Kevin Durant fagnar í leiknum í nótt. AFP

Miami Heat jafnaði gegn Philadelphia 76ers í 1. umferð úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik í nótt. Meistararnir í Golden State Warriors eru 2:0 yfir gegn San Antonio Spurs.

Eftir útisigur Miami 113:103 er staðan 1:1 og liðin halda nú til Flórída. Úrslitin komu á óvart þar sem Philadelphia hafði unnið sautján leiki í röð. Hinn 36 ára gamli Dwyane Wade er ekki dauður úr öllum æðum og skoraði 28 stig fyrir Miami en Ben Simmons var með 24 fyrir Philadelphia. 

Í þessum liðum eru fjórir leikmenn sem Íslendingar hafa mætt í lokakeppnum EM á síðustu árum. Slóveninn Goran Dragic gerði 20 stig fyrir Miami, Ítalinn Marco Belinelli 16 fyrir Philadelphiu og Tyrkinn Ersan Ilyasova 14 fyrir Philadelphiu í nótt. 

Golden State er 2:0 yfir gegn San Antonio án Stephens Curry. Í nótt vann liðið 116:101 og nú verður áhugavert að sjá hvort San Anotonio geti bitið frá sér þegar liðin fara á heimavöll þess í Texas. Kevin Durant gerði 32 stig fyrir Golden State en LaMarcus Aldridge 34 fyrir San Antonio. Kawhi Leonard er ekki enn farinn að spila með San Antonio eftir meiðsli og munar um minna. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert