„Það má kalla þetta fantavörn“

Pétur Rúnar Birgisson með boltann gegn KR.
Pétur Rúnar Birgisson með boltann gegn KR. mbl.is/​Hari

Pétur Rúnar Birgisson, leikmaður Tindastóls, var að vonum niðurlútur eftir leik kvöldsins gegn KR. KR vann leikinn 77:75 með því að setja niður skot á lokasekúndunni. Skömmu áður hafði Pétur jafnað leikinn með þriggja stiga körfu og allt stefndi í framlengingu.

Það kom að því að við fengum hnífjafnan leik á milli þessara liða.

„Já það hlaut að koma að því. Þetta var sjötti leikurinn á milli liðanna og allir hinir unnust með meira en tuttugu stigum. Því miður þá þurftum við að vera á verri endanum í þetta skiptið.“

Þið virtust vera með ágætis tök á þessum leik. Voruð yfir fram í miðjan þriðja leikhluta en þá hreinlega fór allt í klessu. KR tók leikinn yfir með fantavörn og svo bara hirtu þeir öll fráköst sem voru í boði.

„Þetta var alveg voðalegt. Mér fannst dómararnir bara ekki þora að dæma neitt og þetta var ógeðslega pirrandi. Það má kalla þetta fantavörn hjá þeim. Ég vona bara að allir aðilar sem komu að leiknum skoði hann aftur og fari vel yfir sinn þátt í honum. Menn mega túlka þessi orð eins og þeir vilja.“

Þið eruð náttúrulega ekkert hættir.

„Nei það er ekki í boði. Við ætlum að fá annan leik hérna á þriðjudaginn. Menn verða bara að mæta dýrvitlausir í næsta leik á laugardaginn.“

Fannst þér að Antonio Hester væri að spila of mikið miðað við hvað ykkur gekk vel án hans í leik númer tvö?

„Í síðasta leik náðum við að sjokkera KR-inga með ótrúlega vel spiluðum leik. Það var aldrei að fara að gerast annan leik í röð. Hester var alltaf að fara að hjálpa okkur í þessum leik. Aðalmálið var hvað við hittum illa“ sagði Pétur Rúnar að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert