„Gríska undrið“ hélt Milwaukee á lífi

Giannis Antetokounmpo sækir að körfu Boston.
Giannis Antetokounmpo sækir að körfu Boston. AFP

Milwaukee Bucks er enn á lífi í úrslitakeppni NBA-deildarinnar í körfuknattleik en liðið hafði betur gegn Boston Celtics, 97:86, í sjötta leik liðanna í nótt.

Staðan í einvíginu er þar með orðin jöfn, 3:3, og mætast liðin í oddaleik annað kvöld.

Gríska undrið eins og hann er jafnan kallaður, Giannis Antetokounmpo, skoraði 31 stig fyrir Milwaukee. „Við sögðum fyrir leikinn að við ætluðum að spila fast og vinna þar með leikinn og við ætluðum ekki að enda tímabilið. Þetta gerðum við. Við færðum boltann vel og vorum agaðir,“ sagði Antetokounmpo eftir leikinn.

Grikkinn dró svo sannarlega vagninn fyrir sína menn en hann tók 14 fráköst, gaf 4 stoðsendingar og stal tveimur boltum og skoraði 10 af síðustu 19 stigum Milwaukee í leiknum.

Jayson Tatum var stigahæstur í liði Boston með 22 stig en sigurliðið úr þessari rimmu mætir Philadelphia í 2. umferð úrslitakeppninnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert