Þann fyrsta þurfti að framlengja

Kevin Durant og LeBron James takast á.
Kevin Durant og LeBron James takast á. AFP

Framlengingu þurfti til að knýja fram úrslit í fyrsta úrslitaleik Golden State Warriors og Cleveland Cavaliers um NBA-meistaratitilinn í körfuknattleik í Oakland í Kaliforníu í nótt. Höfðu meistararnir í Golden State betur en LeBron James setti persónulegt stigamet hjá Cleveland. 

James skoraði 51 stig en dugði það ekki til hjá Cleveland en svo mikið hafði hann aldrei skorað í einum leik í úrslitakeppninni. Hann gaf auk þess 8 stoðsendingar á samherja sína.  Ekki dugði það til því Golden State sigraði 124:114. 

Draymond Green átti stórleik fyrir Golden State en hann var einni stoðsendingu frá þrefaldri tvennur. Skoraði 13 stig, tók 11 fráköst, gaf 9 stoðsendingar, stal boltanum fimm sinnum og varði tvö skot. Stephen Curry var hins vegar stigahæstur með 29 stig. 

Furðulegt atvik

Staðan var 107:107 að loknum venjulegum leiktíma. George Hill fór á vítalínuna fyrir Cleveland þegar tæpar 5 sekúndur voru eftir. Skoraði hann úr fyrra skotinu og jafnaði leikinn 107:107. Honum brást bogalistin í síðara skotinu en svo vel vildi til fyrir hann að samherji hans J.R. Smith náði boltanum. Ekki gerði Smith þó tilraun til að skora heldur hljóp með boltann í átt að miðjunni. Í allri spennunni missti hann einbeitinguna og taldi einfaldlega að Cleveland væri yfir og lét því leiktímann renna út. Þjálfari Cleveland, Tyronn Lue, staðfesti að leiknum loknum að það væri tilfellið. 

Spurning hvaða áhrif þetta hefur á J.R. Smith í rimmunni sem framundan er en hann er í stóru hlutverki hjá Cleveland. 

Golden State notaði ellefu leikmenn í þessum framlengda leik en Cleveland notaði níu. 

LeBron James reynir að útskýra fyrir JR Smith að staðan …
LeBron James reynir að útskýra fyrir JR Smith að staðan sé jöfn að loknum venjulegum leiktíma. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert