Góð frammistaða Hauks dugði ekki

Haukur Helgi Pálsson í leik með Nanterre.
Haukur Helgi Pálsson í leik með Nanterre. FIBA

Góð frammistaða Hauks Helga Pálssonar dugði ekki til sigurs fyrir Nanterre gegn ísraelska liðinu Unet Holon í Meistaradeildinni í körfuknattleik í Frakklandi í kvöld. 

Haukur skoraði 14 stig á þeim 26 mínútum sem hann spilaði en Ísraelarnir sigruðu 82:70. Haukur nýtti skot sín vel en hann hitti úr 5 af 8 skotum innan teigs og 4 af 6 þristum. Haukur tók auk þess 4 fráköst, gaf 2 stoðsendingar og stal boltanum einu sinni. 

Liðin leika í B-riðli keppninnar. Nanterre er í 5. sæti með 3 sigra í 7 leikjum en Unet Holon hefur unnið 5 af 7 leikjum og er í 2. - 3. sæti riðilsins. 

Alba Berlín lék í Evrópubikarnum í kvöld en Martin Hermannsson er á sjúkralistanum eftir að hafa tognað á ökkla. Alba tók á móti Limoges í hinni glæsilegu Mercedes Benz höll í Berlín og sigraði 84:76.

Alba er í öðru sæti í B-riðli keppninnar með sex sigra og tvö töp en Limoges í 5. sæti með tvo sigra og sex töp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert