Þurfa að spila körfubolta 101

Jóhann Þór Ólafsson.
Jóhann Þór Ólafsson. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Jóhann Þór Ólafsson, þjálfari Grindavíkur, var ánægður með sína menn í síðari hálfleik í Ásgarði í kvöld. Stjarnan sigraði 89:80 en Grindavík átti fína möguleika á sigri þegar liðið var stigi yfir í síðasta leikhlutanum. 

Grindavíkurliðið kom sér í þá stöðu með virkilega góðum leik í þriðja leikhluta en Stjarnan hafði ellefu stiga forskot að loknum fyrri hálfleik. 

„Það sem stendur upp úr er að þetta var góð frammistaða hjá okkur. Það var flottur taktur í þessu fyrir utan að við duttum svolítið niður í þriðja leikhluta. Þá lentum við mest tuttugu og þremur stigum undir að ég held. Síðari hálfleikur var geggjaður hjá okkur. Við sýndum sjálfum okkur að við getum keppt við þetta lið og það skiptir mestu máli,“ sagði Jóhann og hann sagði að munurinn á liðinu í fyrri og og síðari hálfleik hefði verið betur skipulagður sóknarleikur. 

„Við höfum glímt við í nánast allan vetur að við erum svolítið villtir í sókninni. Í öðrum leikhluta leyfðum við okkur að taka skot sem voru svo erfið að sjóðandi heitur Kobe Bryant hefði aldrei tekið. Þannig að þú getur ímyndað þér hvað það eru léleg skot. Þá kemur bara frákast hjá Stjörnunni, hröð sókn og karfa hjá þeim. Í sókninni búum við til betri skotfæri, tökum góð skot, erum í aðstöðu til að berjast um sóknarfrákast. Þótt það takist ekki að ná frákasti þá getum við stillt upp í vörn. Þetta er bara körfubolti 101. Stjarnan er fantagott varnarlið og fyrir vikið getur auðvitað komið fyrir að menn þurfi að skjóta neyðarskotum en heildarbragurinn þarf að vera þannig að menn setji upp góðar sóknir,“ sagði Jóhann í samtali við mbl.is í Ásgarði í kvöld.  

Lewis Clinch sýndi hvers hann er megnugur í kvöld.
Lewis Clinch sýndi hvers hann er megnugur í kvöld. mbl.is/Árni Sæberg
mbl.is