Komast KR og ÍR í úrslitin?

Kevin Capers sækir að körfu Stjörnumanna.
Kevin Capers sækir að körfu Stjörnumanna. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Það verður sannkölluð körfuboltaveisla í kvöld en þá verður spilað í báðum einvígjunum í undanúrslitum Dominos-deildar karla.

Reykjavíkurfélögin KR og ÍR eiga möguleika á að komast í úrslitin um Íslandsmeistaratitilinn en bæði eru þau 2:1 yfir í rimmum sínum.

KR, sem hefur hampað Íslandsmeistaratitlinum undanfarin fimm ár, sækir Þór Þorlákshöfn heim en KR vann þriðja leik liðanna í Frostaskjólinu á laugardagskvöldið 98:89.

Í Hertz-hellinum í Breiðholti tekur ÍR á móti deildar- og bikarmeisturum Stjörnunnar. Eftir að hafa tapað fyrsta leiknum hafa ÍR-ingar unnið tvo leiki í röð en þeir gerðu sér lítið fyrir og lögðu Stjörnumenn í Garðabænum á föstudagskvöldið 68:62 í framlengdum leik þar sem Stjarnan náði ekki að skora eitt einasta stig í framlengingunni.

Nái Stjarnan og Þór Þorlákshöfn að vinna í kvöld tryggja þau sér oddaleiki sem fara þá fram á fimmtudaginn.

Leikur Þórs og KR hefst í Þorlákshöfn klukkan 18.30 en klukkan 20.15 verður flautað til leiks í viðureign ÍR og Stjörnunnar. Báðir leikir kvöldsins verða í beinni textalýsingu hér á mbl.is.

mbl.is