Martin fékk silfrið á Spáni

Martin Hermannsson í baráttu gegn Valencia.
Martin Hermannsson í baráttu gegn Valencia. Ljósmynd/FIBA

Martin Hermannsson og félagar í þýska liðinu Alba Berlín máttu sætta sig  við silfurverðlaunin í Evrópubikarnum í körfuknattleik en þeir töpuðu oddaleiknum í úrslitunum í kvöld gegn Valencia á Spáni, 89:63.

Staðan var 1:1 í einvíginu eftir magnaðan sigur Alba í framlengdum leik á heimavelli á föstudagskvöldið og með því knúðu þeir fram oddaleikinn.

Martin og félagar byrjuðu leikinn frábærlega frammi fyrir 8.000 áhorfendum í Valencia og komust í 11:0. Heimamenn minnkuðu þann mun síðan jafnt og þétt og voru komnir með hann niður í eitt stig þegar fyrsta leikhluta lauk, 18:17 fyrir Alba.

Valencia hóf síðan annan leikhluta með því að skora þrettán stig gegn tveimur og var þá komið í 30:20. Mest munaði fimmtán stigum á liðunum fyrir hlé og þegar flautað var til hálfleiks var staðan 46:33.

Sá munur hélst nokkuð fram eftir þriðja leikhluta en undir lok hans komst Valencia mest 22 stigum yfir, 63:41. Martin átti lokaorðið í leikhlutanum með þriggja stiga körfu fyrir Alba, 63:44.

Í fjórða leikhluta varð fljótlega ljóst að Martin og félagar ættu ekki möguleika. Munurinn hélst sá sami lengi vel og þegar hann jókst enn frekar og staðan var orðin 83:56 þegar þrjár mínútur voru eftir voru úrslitin ráðin.

Martin lék í 21 mínútu í kvöld og náði sér ekki á strik. Hann skoraði 5 stig og átti 2 stoðsendingar fyrir Alba.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert