Meistararnir þurfa á sigri að halda

Kevin Capers átti stórleik í fyrsta leik ÍR og KR …
Kevin Capers átti stórleik í fyrsta leik ÍR og KR og skoraði 28 stig. mbl.is/Eggert

ÍR og KR mætast í öðrum leik sínum í úrslitum Íslandsmóts karla í körfuknattleik í Seljaskóla í Breiðholti í kvöld klukkan 20. ÍR er 1:0-yfir í einvíginu eftir 89:83-sigur í framlengdum leik í fyrsta leik liðanna í DHL-höllinni í Vesturbænum á þriðjudaginn síðasta.

Kevin Capers var stórkostlegur í liði ÍR í leiknum og skoraði 28 stig, tók sex fráköst og gaf 3 stoðsendingar og þá átti Gerald Robinson einnig mjög góðan leik og skoraði 21 stig. Hjá KR voru þeir Jón Arnór Stefánsson og Kristófer Acox stigahæstir með 16 stig hvor.

ÍR lagði bæði Njarðvík, sem endaði í öðru sæti deildarinnar, og Stjörnuna, sem endaði í efsta sætinu, á leið sinni í úrslitin á meðan KR sló Keflavík og Þór frá Þorlákshöfn úr leik. ÍR lék alls 10 leiki í úrslitakeppninni á meðan KR lék sjö leiki og það voru lítil þreytumerki á liði ÍR í fyrsta leiknum í vikunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert