Meistararnir enn á lífi

Stephen Curry að skora tvö af 31 stigi sínu fyrir …
Stephen Curry að skora tvö af 31 stigi sínu fyrir Golden State. AFP

Meistararnir í Golden State Warriors halda enn í vonina um að landa meistaratitlinum þriðja árið í röð eftir sigur gegn Toronto Raptors 106:105 á útivelli í fimmta úrslitaleik liðanna um NBA-meistaratitilinn í körfuknattleik í nótt.

Með sigri hefði Toronto tryggt sér meistaratitilinn í fyrsta skipti í 24 ára sögu félagsins en Golden State fagnaði sigri og minnkaði muninn í 3:2 í úrslitaeinvígi liðanna.

Kawhi Leonard skoraði þriggja stiga körfu og kom Toronto í 103:97 þegar þrjár og hálf mínúta var til leiksloka. Klay Thompson og Stephen Curry komu Golden State í 106:103 þegar 57 sekúndur voru eftir með tveimur þriggja stiga körfum. Kyle Lowry minnkaði muninn niður í eitt stig þegar hálf mínúta var eftir af leiknum og Toronto fékk tækifæri til að tryggja sér sigur í blálokin en Draymond Green varði þriggja stiga skot Lowry.

Kevin Durant varð fyrir meiðslum í hásin.
Kevin Durant varð fyrir meiðslum í hásin. AFP

Stephen Curry var stigahæstur í liði Golden State með 31 stig og Klay Thompson skoraði 26. Stórstjarnan Kevin Durant sneri aftur inn í lið meistaranna eftir að hafa verið frá vegna meiðsla síðustu vikurnar. Durant skoraði 11 stig en hann varð fyrir meiðslum í hásin og kom aðeins við sögu í 12 mínútur. Hann yfirgaf höllina á hækjum og fer í myndatöku í dag.

Kawhi Leonard var atkvæðamestur í liði Toronto með 26 stig og 12 fráköst og Kyle Lowry skoraði 18.

„Það var að duga eða drepast. Þetta var ekki fallegt í seinni hálfleik en þetta hafðist,“ sagði Curry eftir leikinn.

Sjötti úrslitaleikur liðanna fer fram á heimavelli Golden State í Oakland á fimmtudaginn og komi til oddaleiks fer hann fram í Toronto á sunnudaginn. Aðeins einu sinni í 34 ára sögu úrslitakeppni NBA hefur liði tekist að vinna meistaratitilinn eftir að hafa lent 3:1 undir en Cleveland, með LeBron James í broddi fylkingar, tókst að afreka það árið 2016.

mbl.is