Í úrslit eftir tvíframlengdan leik

Marc Gasol fór mikinn í liði Spánverja í dag og …
Marc Gasol fór mikinn í liði Spánverja í dag og skoraði 33 stig. AFP

Spánverjar tryggðu sér sæti í úrslitum HM í körfuknattleik sem fram fer í Kína í morgun þegar liðið vann 95:88-sigur gegn Ástralíu í háspennuleik í undanúrslitum keppninnar. Spánverjar byrjuðu leikinn betur og leiddu með einu stigi eftir fyrsta leikhluta en Ástralar voru fljótir að svara og var staðan 37:32, Áströlum í vil, í hálfleik.

Spánverjar unnu þriðja leikhluta með eins stigs mun og leiddu með einu stigi þegar fjórar sekúndur voru til leikslota, 71:70. Patty Mills, leikmaður Ástralíu, fékk gullið tækifæri til þess að tryggja Áströlum sigur þegar hann var sendur á vítalínuna. Mills hitti úr fyrra vítinu en brenndi af því seinna og því var gripið til framlengingar.

Þegar nokkrar sekúndur voru eftir af framlengingunni fékk Matthew Dellavedova, leikmaður Ástrala, tækifæri til þess að tryggja Áströlum sigur með flautukörfu undir lok framlengingar. Skot hans geigaði og staðan var áfram jöfn, 80:80.

Í annarri framlengingu reyndust Spánverjar sterkari. Þeir náðu snemma fimm stiga forskoti, 87:82, og Áströlum gekk illa að hitta úr skotum sínum. Spánverjar fögnuðu því sigri í leikslok í tvíframlengdum leik en Marc Gasol fór mikinn í liði Spánverja í dag með 33 stig, sex fráköst og fjórar stoðsendingar.

Hjá Áströlum var Patty Mills stigahæstur með 34 stig, þrjú fráköst og tvær stoðsendingar en Spánverjar mæta annaðhvort Frökkum eða Argentínu í úrslitaleik á sunnudaginn kemur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert