Fyrsti mótsleikur landsliðsins eftir þjálfaraskipti

Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari ræðir við leikmenn sína.
Benedikt Guðmundsson landsliðsþjálfari ræðir við leikmenn sína. mbl.is/Hari

Fróðlegt verður að sjá kvennalandsliðið í körfuknattleik í Laugardalshöllinni í kvöld. Langt er orðið síðan liðið lék mótsleik og nú hefst ný undankeppni.

Auk þess hafa þjálfaraskipti orðið en Benedikt Guðmundsson tók við liðinu í vor. Benedikt er þrautreyndur félagsliðaþjálfari og hefur unnið titla bæði í karla- og kvennaflokki. Hann er hins vegar að stíga sín fyrstu skref sem þjálfari A-landsliðs.

Leikurinn í kvöld er gegn Búlgaríu en Ísland og Búlgaría eru fyrir fram talin veikari liðin í riðlinum en Grikkland og Slóvenía þykja öflugri. Benedikt sagði í Morgunblaðinu á þriðjudaginn að hann liti svo á að sigurlíkurnar gegn Búlgörum væru 50/50. Ísland gæti því átt gott tækifæri til að byrja keppnina vel. Í síðustu undankeppni töpuðu Ísland og Búlgaría öllum sínum leikjum sem bendir enn frekar til þess að liðin séu svipuð að styrkleika.

Leikirnir í sumar lofuðu góðu

Landsliðið hefur haft nokkra daga til að undirbúa sig fyrir leikinn og ljóst að engin kraftaverk eru unnin á svo skömmum tíma. Ekki hefur liðið heldur fengið vináttuleiki eftir að körfuboltatímabilið hófst. Liðið býr hins vegar að því að hafa fengið nokkrar vikur til að vinna saman í kringum Smáþjóðaleikana snemma í sumar.

Úrslitin þar lofa nokkuð góðu með þeim fyrirvara að í slíku móti er umhverfið og spennustigið annað en í undankeppni stórmóts. Á móti Kýpur, Lúxemborg, Mónakó og Möltu unnust sigrar með átján til þrjátíu og tveggja stiga mun. Ísland tapaði þar á móti Svartfjallalandi með átta stiga mun eftir jafnan leik en Svartfjallaland hefur verið í lokeppni EM en þangað hefur kvennalið Íslands aldrei náð. Þótt leikurinn gegn Svartfjallalandi hafi tapast þá voru þar jákvæð teikn á lofti frekar en hitt. Fara þarf liðlega ár aftur í tímann til að finna síðast leik í undankeppni stórmóts. Ísland lék þá gegn Bosníu og Slóvakíu í Laugardalshöll. Tapaði Ísland með þrjátíu stiga mun fyrir Slóvakíu og með tíu stiga mun fyrir Bosníu.

Mikið mæðir á Helenu og Hildi

Morgunblaðið spurði Hildi Sigurðardóttur, leikjahæstu landsliðskonu Íslands frá upphafi, út í verkefnið sem framundan er. „Búlgaría er fyrir neðan okkur á styrkleikalistanum en ég veit ekki hversu mikið er að marka það. Ætli þessi lið séu ekki álíka sterk. Íslensku landsliðskonurnar ættu að fara inn í þennan leik til að vinna og gera það,“ sagði Hildur í gær. Helena Sverrisdóttir er vitaskuld í lykilhlutverki í landsliðinu eins og undanfarinn áratug eða svo. Hennar kynslóð er að mestu leyti horfin á braut úr landsliðinu þótt Helena sé bara nýorðin 31 árs. Gunnhildur Gunnarsdóttir er næst henni í aldri í hópnum nú en hún er 29 ára. Íslenska liðið er því fremur ungt þótt nokkrir leikmenn hafi öðlast umtalsverða reynslu.

Sjá greinina í heild sinni á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Kauptu vikupassa

Lestu meira með vikupassa!

Fáðu þér vikupassa fyrir 1.890 kr. og þú færð aðgang að öllu efni úr blaði dagsins í dag og næstu 6 daga.

Kaupa vikupassa

Aðrar áskriftarleiðir »