Borås styrkti stöðu sína á toppnum

Elvar Már Friðriksson hefur spilað frábærlega með Borås í vetur.
Elvar Már Friðriksson hefur spilað frábærlega með Borås í vetur. Ljósmynd/Borås

Elvar Már Friðriksson átti góðan leik að vanda fyrir Borås þegar liðið vann þægilegan heimasigur gegn Köping Stars í efstu deild Svíþjóðar í körfuknattleik í kvöld. Leiknum lauk með 88:77-sigri Borås en Elvar Már skoraði 15 stig, tók fjögur fráköst og gaf sjö stoðsendingar á þeim tæpu 29 mínútum sem hann lék.

Jafnræði var með liðunum í fyrri hálfleik en Borås leiddi með þremur stigum í hálfleik, 47:44. Leikmenn Borås voru hins vegar mun sterkari í síðari hálfleik og skoraði 24 stig gegn 10 stigum Köping Stars í þriðja leikhluta. Köping Stars tókst ekki að ógna forskoti Borås í fjórða leikhluta en Elvar var meira og minna hvíldur í fjórða leikhluta.

Borås er með 48 stig í efsta sæti deildarinnar eftir 28 spilaða leiki en Luleå kemur þar á eftir með 44 stig. Köping Stars er í þriðja sætinu með 38 stig og Södertalje er í fjórða sæti með 34 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert