Höfðu betur í baráttu við Rússa

Ástralir fagna sigri á Brasilíu í undankeppni Ólympíuleikanna fyrr á …
Ástralir fagna sigri á Brasilíu í undankeppni Ólympíuleikanna fyrr á þessu ári. Áströlsku konurnar verða á heimavelli á HM 2022. AFP

Alþjóðakörfuknattleikssambandið, FIBA, tilkynnti í dag að Ástralía myndi halda heimsmeistaramót kvenna árið 2022.

Ástralir höfðu betur í baráttu við Rússa en valið stóð á milli þessara tveggja þjóða eftir að Kanada heltist úr lestinni. Þetta verður í annað skipti sem þeir halda mótið en það fór fram í landinu árið 1994.

Ástralía er meðal fremstu þjóða heims í körfuknattleik kvenna. Lið þjóðarinnar varð heimsmeistari árið 2006 eftir sigur á Rússum í úrslitaleik og á síðasta móti, á Spáni 2018, tapaði ástralska liðið fyrir Bandaríkjunum í úrslitaleik. Þá fengu Ástralir bronsverðlaun 1998, 2002 og 2014 og hafa því verið á verðlaunapalli á fjórum af síðustu sex heimsmeistaramótum. Þeir hafa átt lið á 15 af 18 mótum frá upphafi og aðeins Bandaríkin og Brasilía hafa oftar verið með.

Mótið fer fram í Sydney í september og október 2022. Tólf þjóðir komast í lokakeppnina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert