Líklegt að ferli Jóns Arnórs sé lokið

Jón Arnór Stefánsson í leik með KR.
Jón Arnór Stefánsson í leik með KR. mbl.is/Hari

KR-ingurinn Jón Arnór Stefánsson, sem af mörgum er talinn besti körfuboltamaður Íslandssögunnar, hefur líklega leikið sinn síðasta leik á ferlinum.

Jón Arnór sat fyrir svörum í þættinum Sportið á Stöð2 Sport í kvöld. Hann sagði áður en nýlokið keppnistímabil hófst að það yrði hans síðasta á ferlinum. Spurður hvort sú ákvörðun stæði svaraði Jón því til að það væri ekki enn þá ákveðið mál hvort skórnir færu á hilluna en það væru þó meiri líkur en minni að svo væri.

Jón Arnór á 20 ára meistaraflokksferil að baki og þar af lék hann þrettán tímabil erlendis, í Þýskalandi, Rússlandi, Ítalíu og á Spáni, auk þess sem hann var um tíma í leikmannahópi NBA-liðsins Dallas Mavericks, án þess þó að spila í deildinni. Hann vann Evrópudeild FIBA með Dynamo Saint Petersburg frá Rússlandi árið 2005, hefur tólf sinnum verið kjörinn körfuknattleiksmaður ársins hér á landi, íþróttamaður ársins 2014 og unnið Íslandsmeistaratitilinn fimm sinnum með KR.

mbl.is