Sjötti sigur meistaranna í röð

Meistararnir í Toronto Raptors eru á siglingu.
Meistararnir í Toronto Raptors eru á siglingu. AFP

Meistarar Toronto Raptors unnu sinn sjötta leik í röð í NBA-deildinni í körfubolta er liðið lagði Miami Heat 107:103 í Florida. Er liðið sem fyrr í öðru sæti Austurdeildarinnar á eftir Milwaukee Bucks. 

Fred VanVleet átti einn sinn besta leik á tímabilinu og skoraði 36 stig fyrir Toronto og Pascal Siakam bætti við 22 stigum. Goran Dragic skoraði 25 stig fyrir Miami sem er í fjórða sæti Austurdeildarinnar. 

Los Angeles Lakers hristi af sér tapið gegn Toronto í síðasta leik með 116:108-sigri á Utah Jazz. Anthony Davis átti stórgóðan leik fyrir Lakers og skoraði 42 stig og tók auk þess 12 fráköst. LeBron James gerði 22 stig. Donovan Mitchell var stigahæstur í Utah með 33 stig. 

Anthony Davis átti magnaðan leik hjá Lakers.
Anthony Davis átti magnaðan leik hjá Lakers. AFP

Lakers er með örugga forystu Vesturdeildinni; 51 sigur og 15 töp. Grannarnir í Clippers eru í öðru sæti með 45 sigra og 21 tap. Utah Jazz er í fimmta sæti með 42 sigra og 25 töp. 

Möguleikar San Antonio Spurs á að komast í úrslitakeppnina eru hverfandi eftir tap á móti Philadelphia 76ers, 130:132 og sömu sögu er að segja um Washington Wizards eftir tap á móti Indiana Pacers, 100:111. 

Þá átti nýliðinn Zion Williamson einn sinn besta leik fyrir New Orleans Pelicans í 109:99-sigri á Memphis Grizzlies. Skoraði Zion 23 stig, tók sjö fráköst og gaf fimm stoðsendingar. New Orleans á enn von á að ná sæti í úrslitakeppninni á meðan Memphis er í áttunda og síðasta sætinu í Vesturdeildinni sem gefur slíkt sæti. 

Úrslitin úr NBA-körfuboltanum: 

Miami Heat - Toronto Raptors 103:107
Oklahoma City Thunders - Denver Nuggets 113:121
Washington Wizards - Indiana Pacers 100:111
New Orleans Pelicans - Memphis Grizzlies 109:99
Philadelphia 76ers - San Antonio Spurs 132:130
Utah Jazz - Los Angeles Lakers 108:116

mbl.is