Boston í vandræðum

Jayson Tatum #0 með boltann en Tyler Herro #14 og …
Jayson Tatum #0 með boltann en Tyler Herro #14 og Goran Dragic #7 eru til varnar. AFP

Miami Heat hefur yfir 3:1 í rimmunni gegn Boston Celtics í úrslitum Austurdeildarinnar, undanúrslitum NBA-deildarinnar í körfuknattleik. 

Miami sigraði í nótt 112:109 í kúlunni svokölluðu í Orlando þar sem úrslitakeppnin er leikin. 

Miami vann fyrstu tvo leikina en þá minnkaði Boston muninn. Fyrir fram þóttu vera meiri líkur á því að gamla stórveldið færi í úrslit og sáu margir í hillingum að Boston og Lakers myndu mætast þar.  Miami Heat þarf nú hins vegar aðeins einn sigur til að komast í úrslitin gegn annað hvort LA Lakers eða Denver Nuggets. 

Nýliði í deildinni, Tyler Herro hjá Miami, fær mesta athygli eftir leik næturinnar en hann skoraði 37 stig fyrir Miami. Svo mörg stig hefur nýliði aldrei skorað í undanúrslitum NBA. 

Lykilmenn Miami eru einnig að standa sig í úrslitakeppninni. Jimmy Butler skoraði 24 stig og Goran Dragic 22 stig. 

Jayson Tatum skilaði 28 stigum fyrir Boston og tók níu fráköst. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert