Nálægt þrennunni í fyrsta sigrinum

LeBron James átti stórleik gegn sínum fyrrverandi liðsfélögum í nótt.
LeBron James átti stórleik gegn sínum fyrrverandi liðsfélögum í nótt. AFP

LeBron James átti stórleik fyrir Los Angeles Lakers þegar liðið vann öruggan sigur gegn Miami Heat í fyrsta leik liðanna í úrslitaeinvígi NBA-deildarinnar í körfuknattleik í Disney World í Orlando í Bandaríkjunum í nótt.

Leiknum lauk með 116:98-sigri Lakers en LeBron skoraði 25 stig, tók þrettán fráköst og gaf níu stoðsendingar og vantaði því aðeins eina stoðsendingu til þess að vera með tvöfalda þrennu.

Lakers-menn byrjuðu leikinn af krafti, leiddu með þremur stigum eftir fyrsta leikhluta, en í öðrum leikhluta skoraði liðið 34 stig gegn 20 stigum Miami og staðan því 65:48 í hálfleik, Lakers í vil.

Lakers byrjaði síðari hálfleikinn af krafti, vann þriðja leikhluta með 9 stiga muna, 28:19, og Miami tókst aldrei að koma til baka eftir það þrátt fyrir að vinna fjórða leikhluta með 8 stiga mun.

Anthony Davis var stigahæstur Lakers-manna með 34 stig og níu fráköst. Jimmy Butler var eini leikmaður Miami sem náði sér á strik en hann skoraði 23 stig.

Lakers er því komið í 1:0 í einvíginu en liðin mætast á nýjan leik á föstudaginn kemur. Vinna þarf fjóra leiki til þess að tryggja sér sigur í einvíginu en Lakers varð síðast meistari árið 2010.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert