Landsliðið án síns besta leikmanns

Martin Hermannsson og Craig Pedersen ræða málin á æfingu liðsins …
Martin Hermannsson og Craig Pedersen ræða málin á æfingu liðsins síðasta sumar. mbl.is/Hari

Martin Hermannsson verður ekki með íslenska karlalandsliðinu í körfuknattleik þegar liðið mætir Lúxemborg og Kosovó í forkeppni HM 2023, í lok nóvember.

Leikirnir fara fram í Bratislava í Slóvakíu vegna kórónuveirunnar en til stóð að báðir leikirnir færu fram hér á landi. Ísland mætir Lúxemborg hinn 26. nóvember og Kosovó 28. nóvember.

Martin spilar í Evrópudeildinni með liði sínu Valencia á sama tíma og landsleikirnir eiga að fara fram.

Landsliðsþjálfarinn Craig Pederson valdi alls 13 leikmenn í hópinn að þessu sinni en þeir Haukur Helgi Pálsson og Tryggvi Snær Hlinason eru báðir í hópnum. Þeir leika báðir á Spáni, líkt og Martin.

Kristófer Acox gat ekki tekið þátt í verkefninu vegna meiðsla og þeir Brynjar Þór Björnsson, Collin Pryor, Ólafur Ólafsson, Pavel Ermolinskij og Sigurður Gunnar Þorsteinsson gáfu ekki kost á sér að þessu sinni.

Enginn nýliði er í hópnum að þessu sinni en Ragnar Ágúst Nathanaelsson er þrettándi maður hópsins og verður til taks ef gera þarf breytingar á liðinu en alls mega tólf leikmenn vera á bekknum í hverjum leik.

Landsliðshópur Íslands:

Breki Gylfason · Haukar (7)
Elvar Már Friðriksson · BC Siauliai, Litháen (46)
Gunnar Ólafsson · Stjarnan (20)
Haukur Helgi Briem Pálsson · MoraBanc Andorra, Spánn (68)
Hjálmar Stefánsson · CD Carbajosa Basket, Spánn (16)
Hörður Axel Vilhjálmsson · Keflavík (84)
Jón Axel Guðmundsson · Fraport Skyliners, Þýskaland (11)
Kári Jónsson · Haukar (12)
Sigtryggur Arnar Björnsson · Grindavík (10)
Tómas Þórður Hilmarsson · CD Carbajosa Basket, Spánn (6)
Tryggvi Snær Hlinason · Zaragoza, Spánn (39)
Ægir Þór Steinarsson · Stjarnan (62)
Ragnar Ágúst Nathanaelsson · Haukar (47)

mbl.is