Ekki nóg að skora 45 stig

Paul George tryggði Clippers sigurinn í lokin.
Paul George tryggði Clippers sigurinn í lokin. AFP

Þótt Zach LaVine ætti stórleik fyrir Chicago Bulls og skoraði 45 stig nægði það ekki til liðinu til að knýja fram útisigur á LA Clippers í NBA-deildinni í körfuknattleik í kvöld.

LaVine, sem gerði tíu þriggja stiga körfur í leiknum, skoraði m.a. sex stig í röð á lokamínútu leiksins og minnkaði þá muninn í eitt stig, 126:125. Paul George innsiglaði hins vegar sigur Clippers með fjórum stigum af vítalínunni og karfa frá Chicago í blálokin breytti engu. Lokatölur 130:127 fyrir Clippers.

Kawhi Leonard skoraði 35 stig fyrir Clippers og George skoraði 28, átti 9 stoðsendingar og tók 7 fráköst en lið þeirra hefur unnið sjö af fyrstu ellefu leikjum sínum og er í þriðja sæti Vesturdeildar. Chicago er í tólfta sæti Austurdeildar með fjóra sigra í ellefu leikjum.

Fyrr í kvöld  vann Utah Jazz útisigur á Detroit Pistons, 96:86. Mike Conley skoraði 22 stig fyrir Utah sem hefur unnið sex af fyrstu tíu leikjum sínum en Jerami Grant skoraði 28 stig fyrir Detroit sem er hinsvegar með aðeins tvo sigra í tíu leikjum.

mbl.is