Stórleikur Curry dugði ekki til

Steph Curry átti góðan leik í nótt.
Steph Curry átti góðan leik í nótt. AFP

Steph Curry var í aðalhlutverki hjá Golden State Warriors þegar liðið tapaði 111:117 gegn Atlanta Hawks í NBA-deildinni í körfuknattleik í nótt.

Curry var með 37 stig og fimm stoðsendingar en hitti þó verr en hann er vanur úr þriggja stiga skotum sínum, aðeins þremur af 12 tilraunum.

Liðsfélagi hans, Kelly Oubre Jr., átti einnig góðan leik og var með tvöfalda tvennu;  20 stig og 11 fráköst. Draymond Green náði sömuleiðis tvöfaldri tvennu með 11 stigum og 11 stoðsendingum.

Sem áður segir var Atlanta þó hlutskarpara í leiknum. Tveir leikmenn liðsins náðu tvöfaldri tvennu. Danilo Gallinari var með 25 stig og 10 fráköst og Clint Capela gerði 24 stig og tók 18 fráköst.

Fjórir aðrir leikir fóru fram í NBA-deildinni í nótt.

Öll úrslit næturinnar:

Atlanta – Golden State 117:111

Boston – Charlotte 116:86

Philadelphia – Memphis 100:116

Denver – Orlando 119:109

Houston – New Orleans 115:122

mbl.is