Þór tók forystuna í einvíginu

Larry Thomas sækir að vörn Stjörnunnar.
Larry Thomas sækir að vörn Stjörnunnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þór frá Þorlákshöfn er komið í 2:1 í einvígi sínu við Stjörnuna í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfuknattleik karla eftir öruggan 115:92 sigur í Þorlákshöfn í kvöld.

Stjörnumenn hófu leikinn af talsverðum krafti og voru komnir í 7:14 forystu eftir rúmlega þriggja mínútna leik. Þá fór í hönd frábær kafli Þórsara, sem skoruðu næstu 13 stig og sneru þannig taflinu við, staðan orðin 20:14.

Mest náðu Þórsarar níu stiga forystu í fyrsta leikhluta, 30:21, en Stjörnumenn löguðu aðeins stöðuna áður en leikhlutinn var úti. Staðan að honum loknum 30:25.

Í öðrum leikhluta komu fyrstu stigin ekki fyrr en eftir tæplega tveggja mínútna leik. Eftir það fór hins vegar allt í gang hjá Þórsurum, sem náðu mest 12 stiga forystu, 42:30, um tveimur mínútum síðar.

Stjörnumenn tóku þá umsvifalaust leikhlé og virkaði það sem vítamínsprauta því skömmu síðar var munurinn orðinn fjögur stig, 45:41.

Þórsarar tóku þá leikhlé og náðu aftur að opna góða forystu, 57:48, þegar skammt var eftir af fyrri hálfleik. Staðan í hálfleik 59:51, Þórsurum í vil.

Í þriðja leikhluta voru Þórsarar áfram með undirtökin og hleyptu Stjörnumönnum ekki nálægt sér enda óx þeim aðeins ásmegin þegar líða tók á hann. Náðu þeir mest 17 stiga forystu, 80:63, þegar tæpar þrjár mínútur voru eftir af leikhlutanum.

Náðu þeir að halda í þessa góðu forystu að mestu og var staðan að loknum þriðja leikhluta 86:70.

Í fjórða leikhluta héldu Þórsarar uppteknum hætti og bættu enn frekar við forystu sína. Komust þeir mest í 27 stiga forystu, 104:77.

Stjörnumenn hittu afar illa í leikhlutanum, sérstaklega framan af og Þórsarar unnu því að lokum þægilegan 23 stiga sigur, 115:92.

Callum Lawson fór á kostum í liði Þórs og skoraði 26 stig, þar af sex þriggja stiga körfur úr átta tilraunum.

Þórsarar spiluðu frábæran varnarleik og þvinguðu Stjörnumenn til þess að leita inn á teig, en þeir vilja heldur reyna við þriggja stiga skot.

Skemmst er að segja frá því að tilraunir Stjörnumanna til þess að skjóta fyrir utan teig gengu ekki nægilega vel upp, þó að skotnýtingin hafi verið 34 prósent, sem telst ágætt. Munurinn fólst helst í því að liðið hitti vel í fyrri hálfleik en gekk bölvanlega að gera það í þeim síðari.

Hjá Þórsurum var þriggja stiga skotnýtingin hins vegar stórkostleg, 60 prósent, þar sem nánast allar tilraunir þeirra fóru ofan í körfuna í síðari hálfleiknum.

Liðin mætast í fjórða leik næstkomandi miðvikudagskvöld í Garðabænum. Þar getur Þór með sigri tryggt sér sæti úrslitum Íslandsmótsins, á meðan Stjarnan getur knúið fram oddaleik í einvíginu,

Gangur leiksins:: 4:8, 12:14, 25:16, 30:25, 35:28, 45:33, 49:44, 59:51, 64:53, 70:61, 80:65, 86:70, 94:72, 101:75, 108:85, 115:92.

Þór Þorlákshöfn: Callum Reese Lawson 26/8 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 22/7 fráköst/6 stoðsendingar, Larry Thomas 15/4 fráköst, Davíð Arnar Ágústsson 14, Adomas Drungilas 10/9 fráköst, Emil Karel Einarsson 10/4 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 9/8 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 5/4 fráköst, Tómas Valur Þrastarson 2, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 2.

Fráköst: 30 í vörn, 9 í sókn.

Stjarnan: Alexander Lindqvist 20/4 fráköst, Ægir Þór Steinarsson 19, Hlynur Elías Bæringsson 12/6 fráköst, Tómas Þórður Hilmarsson 11, Gunnar Ólafsson 9/4 fráköst, Austin James Brodeur 8, Dúi Þór Jónsson 7/7 stoðsendingar, Hugi Hallgrímsson 2, Friðrik Anton Jónsson 2, Arnþór Freyr Guðmundsson 2.

Fráköst: 16 í vörn, 12 í sókn.

Dómarar: Kristinn Óskarsson, Davíð Tómas Tómasson, Gunnlaugur Briem.

Áhorfendur: 300

Lýsing uppfærist sjálfkrafa

Allar lýsingar í beinni

Þór Þ. 115:92 Stjarnan opna loka
99. mín. skorar
mbl.is