Stjarnan bikarmeistari í sjötta sinn

Stjarnan varð í dag bikarmeistari karla í körfuknattleik sjötta sinn. Stjarnan vann Þór frá Þorlákshöfn í úrslitaleik VÍS-bikars karla  í Smáranum í Kópavogi í dag 93:85.

Stjarnan hefur þá unnið keppnina fimm sinnum frá því félagið braut ísinn árið 2009. Og liðið hefur þrívegis unnið á síðustu fjórum árum. 2019, 2020 og nú en liðið var einnig í úrslitaleiknum 2021 en þá vann Njarðvík. 

Gamli handboltabærinn er nánast að verða körfuboltabær eftir þessa miklu velgengni körfuboltaliðsins en það er býsna magnað að fara í fjóra bikarúrslitaleiki í röð. 

Úrslitaleikurinn var lengst af mjög skemmtilegur. Leikurinn var mjög fjörugur í fyrri hálfleik. Mikið skorað og liðin skiptust á að hafa forystuna. Stjarnan náði tíu stiga forskoti í fyrsta leikhluta en Þór vann það upp á skömmum tíma í öðrum leikhluta. Stjarnan var yfir 45:43 að loknum fyrri hálfleik. 

Það sama gerðist í upphafi síðari hálfleiks eins og í fyrsta leikhluta að Garðbæingar náðu tíu stig forskoti á skömmum tíma. Þegar þeir tóku rispur og hittu þristunum þá var erfitt að eiga við þá. Þórsarar minnkuðu þetta forskot af og til niður en hann varð þó ekki minni en fimm stig. Þegar leið á leikinn var vörnin hjá Stjörnunni orðin öflug og sóknirnar urðu þyngri hjá Þórsurum. 

Þegar tæpar tvær mínútur voru eftir munaði sex stigum og Stjarnan fór í sókn. Þá sýndi Rutkauskas mikið dómgreindarleysi og setti olnbogann í andlitið á Gunnari Ólafssyni. Stjarnan hitti úr báðum vítunum og hélt boltanum. Innsiglaði Stjarnan eiginlega sigurinn í þessari sókn. 

Stjarnan fékk mjög stórt framlag frá nokkrum mönnum. Robert Turner III var stigahæstur með 31 stig og er frábær leikmaður. Slóveninn David Gabrovsek setti fimm þrista í aðeins sjö tilraunum og skoraði 29 stig. Hilmar Smári Henningsson skoraði ekki stig í fyrri hálfleik en skoraði átta stig í röð í þriðja leikhluta og alls 17 stig. Það þarf getu og sjálfstraust til að skora 17 stig í síðari hálfleik í bikarúrslitaleik eftir að hafa ekki komist á blað í fyrri hálfleik. 

Þetta vel mannaða Stjörnulið virðist ekki þurfa á mörgum stigum að halda frá Hlyni Bæringssyni en þegar að er gáð þá gerir hann svo margt fyrir liði. Fertugur maðurinn lék í 31 mínútu, gaf 7 stoðsendingar, tók 9 fráköst og stal boltanum tvisvar. 

Luciano Massarelli skoraði 28 stig fyrir Þór og Glynn Watson skoraði 26 stig. Þeir eru báðir mjög öflugir leikmenn og sýndu oft frábær tilþrif. En á bak við þetta stigaskor eru einnig mjög margar skottilraunir. Fleiri lykilmenn hjá Þór hefðu þurft að komast betur inn í leikinn. 

Lið Stjörnunnar: Kristján Fannar Ingólfsson, Róbert Eugene Turner III, Hlynur Bæringsson, Gunnar Ólafsson, Sigurður Rúnar Sigurðsson, Hilmar Smári Henningsson, Tómas Þórður Hilmarsson, Ingimundur Orri Jóhannsson, Arnþór Freyr Guðmundsson, Ragnar Nathanaelsson, Shawn Dominique Hopkins, David Gabrovsek. 

Lið Þórs Þ: Tristan Rafn Ottósson, Kyle Johnson, Sæmundur Þór Guðveigsson, Glynn Watson, Emil Karel Einarsson, Luciano Massarelli, Tómas Valur Þrastarson, Ísak Júlíus Perdue, Davíð Arnar Ágústsson, Daniel Mortensen, Ragnar Örn Bragason, Ronaldas Rutkauskas.  

Stjarnan 93:85 Þór Þ. opna loka
99. mín. skorar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert