800 miðar seldust á 10 mínútum - Stubbur hrundi vegna álags

Kári Jónsson sækir að körfu Tindastóls í leiknum í gærkvöldi. …
Kári Jónsson sækir að körfu Tindastóls í leiknum í gærkvöldi. Pétur Rúnar Birgisson er til varnar. mbl.is/Kristinn Magnússon

Áhuginn á úrslitaeinvígi Íslandsmótsins í körfubolta karla er hreint út sagt ótrúlegur. Valur og Tindastóll eigast við og eftir þrjá leiki liðanna leiðir Valur, 2:1.

Fjórði leikur liðanna fer fram á Sauðárkróki á sunnudaginn en töluvert færri komust að en vildu í þriðja leiknum í gærkvöldi.

Tindastóll opnaði miðasöluna fyrir fjórða leik klukkan 9 í morgun en blaðamaður mbl.is heyrði í Degi Þór Baldvinssyni formanni körfuknattleiksdeildar Tindastóls vegna ábendinga um að miðasölukerfið Stubbur hafi hrunið undan álagi.

„Já það hrundi hjá okkur kerfið. Við erum enn að skoða hvað við getum gert en ég held að það hafi selst einhverjir 800 miðar á um 10 mínútum í morgun.“

Dagur segir jafnframt að Síkið, íþróttahús Tindastóls taki ekki nema 1200 manns og félagið sé því í vandræðum. Eftirspurnin er einfaldlega meiri.

mbl.is