Var orðinn djöfull hungraður

Kári Jónsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í leikslok.
Kári Jónsson var valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar í leikslok. mbl.is/Kristinn Magnússon

„Mér líður frábærlega,“ sagði Kári Jónsson í sannkallaðri sæluvímu í samtali við mbl.is eftir að hann varð Íslandsmeistari í fyrsta skipti með Val með 73:60-heimasigri á Tindastóli í oddaleik í úrslitaeinvíginu í kvöld.

„Ég veit ekki hvað ég get sagt. Ég er virkilega stoltur af liðinu í dag. Allir leikirnir hafa verið svakaleg barátta og þetta hefur verið orka, ákefð og spenna og leikir verið að klárast í lokin. Ég er virkilega stoltur að ná að klára þetta.“

„Vörn, vörn, vörn vörn,“ svaraði Kári aðspurður hvernig Valsmenn fóru að því að hrista Tindastól af sér í seinni hálfleik eftir hnífjafnan fyrri hálfleik. „Hún hefur verið lykillinn alla úrslitakeppnina. Við skorum 73 stig, sem er ekki mikið, en við höldum þeim í 60 stigum sem er virkilega flott.“

Kári fór í úrslit með uppeldisfélaginu Haukum árið 2016 en tapaði þá fyrir KR. Hann hefur því þurft að bíða lengi til að finna hvernig það er að vera hinum megin við borðið. „Ég var orðinn djöfull hungraður og búinn að fá þefinn af þessu. Mann langaði þetta ógeðslega mikið þegar maður var kominn hingað aftur,“ sagði Kári.

Hann var að lokum valinn besti leikmaður úrslitakeppninnar. „Þetta var viðurkenning fyrir mikið erfiði og vinnu í allan vetur. Ég, Kristó eða hver sem er hefði átt þetta skilið,“ sagði landsliðsmaðurinn að lokum.   

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert