Fékk að heyra að ég væri í vitlausum búningi

Dagbjört Dögg Karlsdóttir, lengst til hægri, var í úrvalsliði Subway-deildarinnar.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir, lengst til hægri, var í úrvalsliði Subway-deildarinnar. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við hefðum auðvitað viljað fara lengra og standa okkur betur í úrslitakeppninni en við lærum af þessu og erum spenntar að taka nýtt tímabil og gera betur á næsta ári,“ sagði körfuknattleikskonan Dagbjört Dögg Karlsdóttir, leikmaður Vals, í samtali við mbl.is.

Dagbjört var á föstudag kjörin í úrvalslið Subway-deildarinnar eftir gott ár í Valsliðinu. Valur endaði í öðru sæti í deildinni og féll úr leik gegn Haukum í undanúrslitum Íslandsmótsins. Hún var sátt með eigin frammistöðu í vetur, sérstaklega fram að meiðslum sem hægðu aðeins á henni.

„Heilt yfir fannst mér mín frammistaða nokkuð góð en svo lenti ég í meiðslum og átti aðeins erfitt uppdráttar eftir það. Fram að því fannst mér ég standa mig vel og það hefði verið gaman að sjá hvernig hefði farið ef ég hefði verið heil heilsu. Þetta var slæmur snúinn ökkli en ég er í góðum málum núna,“ sagði hún.

Dagbjört Dögg Karlsdóttir í leik með Val.
Dagbjört Dögg Karlsdóttir í leik með Val. mbl.is/Óttar Geirsson

Dagbjört hefur verið í báðum Íslandsmeistaraliðum Vals til þessa en kvennalið félagsins fagnaði sigri árin 2019 og 2021. Karlalið félagsins varð svo meistari á dögunum í fyrsta skipti í 39 ár.

„Við fylgdumst vel með því og það er frábært að sjá hvað er mikill uppgangur hjá Val og að sjá liðið vinna þennan titil í fyrsta skipti í 39 ár. Framtíðin er björt í Val, þar sem umgjörðin er frábær. Vonandi taka bæði lið þetta á næsta ári,“ sagði Dagbjört.

Dagbjört er Húnvetningur og er uppalinn á Reykjaskóla í Hrútafirði. Hún er því uppalin rúmum 100 kílómetrum frá Sauðárkróki. Karlalið Vals vann Tindastól í úrslitum og landsliðskonan viðurkennir að hún beri einhverjar taugar til Tindastóls.

Dagbjört Dögg í landsleik gegn Rúmeníu.
Dagbjört Dögg í landsleik gegn Rúmeníu. Ljósmynd/FIBA

„Ég verð að segja að einhverju leyti. Ég er uppalin á Reykjum í Hrútafirði og allir á Hvammstanga héldu með Tindastóli. Ég fór í bæinn þegar ég byrjaði í menntaskóla og byrjaði snemma í Val eftir það en ég fékk að heyra frá Hvammstangamönnum og heimamönnum að maður væri í vitlausum búningi þegar maður mætti í Valstreyjunni á leiki.

Ég er búin að vera spila með Val, svo ég hélt með Val í leikjunum á móti Tindastóli. Jafnvel þótt maður beri einhverjar taugar til nágranna sinna fyrir norðan,“ sagði Dagbjört Dögg. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert