Valskonur sterkari í síðari hálfleik

Hildur Björg Kjartansdóttir sækir að Grindvíkingum í kvöld.
Hildur Björg Kjartansdóttir sækir að Grindvíkingum í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Simone Costa var stigahæst hjá Val þegar liðið vann tíu stiga sigur gegn Grindavík í úrvalsdeild kvenna í körfuknattleik, Subway-deildinni, í Origo-höllinni á Hlíðarenda í 12. umferð deildarinnar í kvöld.

Leiknum lauk með 73:63-sigri Vals en Costa skoraði 16 stig og tók þrjú fráköst í leiknum.

Grindavík var sterkari aðilinn í fyrri hálfleik og leiddi með fjórum stigum í hálfleik, 37:33. Valskonur skoruðu 19 stig gegn 9 stigum Grindavíkur í þriðja leikhluta og Grindvíkingum tókst ekki að snúa leiknum sér í vil í fjórða leikhluta.

Hallveig Jónsdóttir skoraði 13 stig fyrr Val, tók tvö fráköst og gaf þrjár stoðsendingar en Danielle Rodriguez var stigahæst hjá Grindavík með 18 stig, átta fráköst og þrjár stoðsendingar.

Valur er með 18 stig í þriðja sæti deildarinnar en Grindavík er í fimmta sætinu með 8 stig.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert