„Ég fékk að vera með félögum mínum á stærsta sviðinu“

Logi kveður og þakkar stuðningsmönnum Njarðvíkur í leikslok.
Logi kveður og þakkar stuðningsmönnum Njarðvíkur í leikslok. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Logi Gunnarsson, hinn síungi og geðþekki körfuboltamaður úr Njarðvík, kvaddi sviðið í kvöld. Logi var með Njarðvíkingum í undanúrslitaleik gegn Tindastól í Síkinu á Sauðárkróki og tap myndi þýða að ferillinn væri á enda.

Því miður fyrir Loga og félaga hans þá voru Tindastólsmenn í jötunmóð og réðu Njarðvíkingar ekkert við stórkostlega hittni Stólanna. Fór svo að lokum að Njarðvík steinlá og eru þeir þar með úr leik á Íslandsmótinu. Tindastóll fer hins vegar í úrslitaleikina.

Logi var hylltur af öllum áhorfendum undir lok leiks og einnig eftir leik og var því höfðinginn kvaddur með virktum. Logi kom í viðtal við mbl.is eftir leik og stóð sig frábærlega þar eins og við var að búast.

„Það er voðalega lítið hægt að segja um þennan leik. Hann fór eiginlega strax í byrjun. Við áttum bara erfitt uppdráttar og þeir hittu rosalega vel úr skotunum sínum þótt við værum alveg ofan í þeim. Ég verð að hrósa Stólunum fyrir það hvernig þeir komu út í þennan leik. Við ætluðum að vera miklu kraftmeiri en við hreinlega náðum því ekki almennilega. Við sáum eiginlega aldrei til sólar eftir að þeir bjuggu til sitt forskot í fyrsta leikhlutanum.

Logi kveður stuðningsmenn á hæsta stigi körfuboltans á Íslandi í …
Logi kveður stuðningsmenn á hæsta stigi körfuboltans á Íslandi í síðasta skipti. Ljósmynd/Jóhann Helgi Sigmarsson

Það hefur örugglega eitthvað að segja að okkur vantaði  Rasio, sem var í banni, til að berjast um fráköstin inni í teig en það er ekki ástæðan fyrir þessum mun sem var á liðunum eftir fyrri hálfleikinn. Það voru vonbrigði að ná ekki upp þeim krafti sem við lögðum upp með að ná.“

Það er kannski ekkert skrýtið. Það sem Stólarnir sýndu í skotunum sínum var nánast yfirnáttúrulegt.

„Hittnin var óvenju mikil hjá þeim en góðir leikmenn hitta. Leikmenn Tindastóls áttu góðan dag og hittu meira og minna allir á góðan leik. Þá eru þeir bara illviðráðanlegir. Ég vil bara hrósa þeim aftur og megi þeim ganga vel í úrslitunum.“

Nú varst þú að ljúka ferlinum. Hvernig var tilfinningin eftir að hafa spilað mörg hundruð leikja?

„Ég held að leikirnir séu komnir yfir 900. Ég er svo sem ekkert að einblína á að hafa endað þetta svona, með stóru tapi. Ég verð fljótur að hugsa til baka og minnast allra hinna leikjanna. Það voru sigrar og töp, allt í bland. Ég læt þetta ekkert skemma fyrir. Ég er bara ánægður að hafa fengið að vera á svona sviði, fyrir framan alla þessa áhorfendur. Flestir á mínum aldri, sem eru í körfubolta, eru í einhverjum bumbubolta í neðri deildunum en ég fékk að vera með félögum mínum á stærsta sviðinu og er bara ánægður með það.“

Þú virðist hafa mjög mikið jafnaðargeð. Nú eru börnin þín í körfu og elsta dóttir þín farin að spila með meistaraflokki Njarðvíkur. Ætlar þú að hafa þetta sama jafnaðargeð þegar þú fylgist með sem pabbinn í stúkunni?

„Ég mun reyna það. Talandi um þetta þá hélt ég að ég myndi aldrei ná því að vera að spila í meistaraflokki á sama tíma og barnið mitt. Við feðginin náðum þessu í úrslitakeppninni g spiluðum sitt hvorn daginn, hún með kvennaliðinu gegn Keflavík og ég svo daginn eftir gegn Grindavík. Það var mjög gaman og góð minning, bara eitt af mörgu sem stendur upp úr á þessum ferli. Ég er ánægður með öll þessi ár og ekki síst með allan vinskapinn og vinina sem ég hef eignast yfir allan þennan tíma“ sagði Logi að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert