Hef aldrei heyrt um aðra eins vitleysu

Hér sést þegar bandaríska sveitin missti keflið.
Hér sést þegar bandaríska sveitin missti keflið. AFP

Kínverjar voru gríðarlega ósáttir þegar kvennasveit Bandaríkjanna í 4 x 100 m boðhlaupi kvenna fékk annað tækifæri til að tryggja sér sæti í úrslitum á Ólympíuleikunum í Ríó.

Bandaríska sveitin missti keflið í skiptingu í undanúrslitunum og féll úr leik. Banda­ríska liðið kærði hins veg­ar hlaupið á þeirri forsendu að bras­il­íska boðhlaups­sveit­in hefði farið inn á braut þess og truflað skipt­ing­una ör­laga­ríku.

Sveit Bandaríkjanna gerði engin mistök í uppreisnarhlaupinu svokallaða og tryggði sér sæti í úrslitunum. Við það misstu Kínverjar, sem höfðu verið síðastir inn í úrslitin, sæti sitt.

Kínverjar mótmæltu því að Bandaríkin fengju annað tækifæri og sögðu meðal annars að aðstæður í seinna hlaupinu væru allt aðrar en í hefðbundnum boðhlaupum, enda bandaríska sveitin ein á brautinni. Einnig töldu Kínverjarnir að bandaríska liðið hefði gert mistök og misst keflið, það væri ekki hægt að kenna öðrum um það.

„Það er fáránlegt að Bandaríkjunum hafi verið leyft að hlaupa aftur. Ég hef aldrei heyrt um aðra eins vitleysu,“ sagði Feng Shuyong, kínverskur frjálsíþróttadómari.

„Okkur þykir þetta einstaklega ósanngjarnt. Við börðumst af miklum krafti fyrir því að komast í úrslitin,“ sagði hlauparinn Wei Yongli.

Sveit Bandaríkjanna fagnar eftir að hafa tryggt sér sæti í …
Sveit Bandaríkjanna fagnar eftir að hafa tryggt sér sæti í úrslitunum. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert