Svíar sluppu með skrekkinn gegn liði Arons

Svíar fagna markverðinum Andreas Palicka eftir að hann varði vítakast …
Svíar fagna markverðinum Andreas Palicka eftir að hann varði vítakast á lokasekúndu leiksins við Barein. AFP

Svíar sluppu með skrekkinn gegn Aron Kristjánssyni og hans mönnum í liði Barein í handknattleikskeppni karla á Ólympíuleikunum í dag og unnu afar nauman sigur, 32:31.

Barein gat tryggt sér stig eftir að leiktímanum lauk en sænski markvörðurinn Andreas Palicka varði vítakast frá Mohamed Ahmed og Bareinar urðu að sætta sig við að fá ekkert út úr leik þar sem þeir voru lengst af með yfirhöndina.

Ali Eid leikmaður Barein reynir að brjótast í gegnum sænsku …
Ali Eid leikmaður Barein reynir að brjótast í gegnum sænsku vörnina í leiknum í dag. AFP

Svíar komust í 8:3 og 10:5 en Bareinar jöfnuðu metin í 15:15 og náðu forystunni fyrir hlé, 18:16. Þeir voru síðan einu til tveimur mörkum yfir nær allan seinni hálfleikinn og voru komnir í 31:29 þegar sex mínútur voru eftir. Á lokakaflanum náðu Aron og hans menn ekki að skora mark gegn þremur mörkum Svía sem því knúðu fram afar nauman sigur.

Hampus Wanne skorar eitt af 13 mörkum sínum fyrir Svía …
Hampus Wanne skorar eitt af 13 mörkum sínum fyrir Svía í leiknum í dag. AFP

Hampus Wanne var allt í öllu hjá Svíum og þeir geta fyrst og fremst þakkað honum sigurinn en Wanne skoraði 13 mörk í leiknum. Albin Lagergren kom næstur með 5 mörk. Hjá Barein var Mohamed Ahmed markahæstur með 6 mörk.

Norðmenn og Frakkar unnu

Norðmenn sigruðu Brasilíu, 27:24, í fyrsta leiknum í handknattleikskeppni karla í morgun eftir að hafa verið undir í hálfleik, 12:13.

Sander Sagosen skoraði 8 mörk fyrir norska liðið, Bjarte Myrhol og Harald Reinind 4 mörk hvor og Torbjørn Bergerud varði 12 skot í markinu. Haniel Langaro skoraði 5 mörk fyrir Brasilíumenn.

Sander Sagosen reynir að komast í gegnum vörn Brasilíumanna. Hann …
Sander Sagosen reynir að komast í gegnum vörn Brasilíumanna. Hann skoraði 8 mörk í leiknum í morgun. AFP

Frakkar sigruðu Argentínu 33:27 eftir að hafa verið yfir í hálfleik, 12:10. Melvyn Richardson skoraði 7 mörk fyrir Frakka, Nedim Remili, Ludovic Fabregas og Hugo Descat 4 mörk hver. Hjá Argentínumönum var Diego Simonet atkvæðamestur með 8 mörk.

Þrír leikir eru eftir í dag. Alfreð Gíslason og hans menn í þýska landsliðinu mæta Spánverjum í stórleik klukkan 7.15. Portúgal leikur við Egyptaland klukkan 10.30 og gestgjafarnir í Japan, undir stjórn Dags Sigurðssonar, glíma við heimsmeistarana frá Danmörku klukkan 12.30.

Frakkland, Noregur, Þýskaland, Spánn, Brasilía og Argentína eru í A-riðli mótsins.

Svíþjóð, Danmörk, Portúgal, Egyptaland, Japan og Barein eru í B-riðlinum.

Fjögur efstu liðin í hvorum riðli komast í átta liða úrslitin.

mbl.is