Óvæntur sigur hjá átján ára strák

Ahmed Hafnaoui fagnar sigrinum í morgun.
Ahmed Hafnaoui fagnar sigrinum í morgun. AFP

Ahmed Hafnaoui, átján ára gamall strákur frá Túnis, kom mjög á óvart í morgun þegar hann varð ólympíumeistari í 400 metra skriðsundi í Tókýó.

Hann sigraði í greininni á 3:43,36 mínútum en framan af sundinu virtist heimsmet í uppsiglingu. Seinni hluti þess var þó hægari en Hafnaoui vann á góðum endaspretti. Jack McLoughlin frá Ástralíu fékk silfurverðlaunin og Kieran Smith frá Bandaríkjunum bronsið.

Túnisbúinn hafði endað í áttunda sæti í undanrásunum og sigur hans var því mjög óvæntur. Hann hafði lýst því yfir að markmiðið væri að verða ólympíumeistari í París eftir þrjú ár.

Hann er annar sundmaðurinn frá Túnis sem fær gull á Ólympíuleikum en Oussama Mellouli sigraði í 10 km maraþonsundi á leikunum í London árið 2012.

Hafnaoui kemur úr íþróttafjölskyldu en faðir hans var landsliðsmaður Túnis í körfubolta.

Yui Ohashi með gullverðlaunin.
Yui Ohashi með gullverðlaunin. AFP

Veik síðast, best núna

Gestgjafarnir kræktu í gullverðlaun í sundinu í morgun þegar Yui Ohashi sigraði í 400 metra fjórsundi kvenna. Hún hafði nokkra yfirburði og kom í mark á 4:32,08 mínútum en Emma Weyant og Hali Flickinger frá Bandaríkjunum fengu silfur og brons.

Ohashi missti af Ólympíuleikunum í Ríó vegna veikinda og sagði að draumur sinn til fimm ára hefði ræst og það væri afar sérstakt að fagna þessum sigri á eigin heimavelli.

Chase Kalisz fagnar sigri í 400 metra fjórsundi karla.
Chase Kalisz fagnar sigri í 400 metra fjórsundi karla. AFP

Chase Kalisz frá Bandaríkjunum sigraði í 400 metra fjórsundi karla í morgun á 4:09,42 mínútum og landi hans Jay Litherland fékk silfrið, 86/100 úr sekúndu á eftir honum. Brendon Smith frá Ástralíu hlaut bronsverðlaunin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert